Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:09:09 (5572)

2002-03-05 15:09:09# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að hafrannsóknir, rannsóknir á lífríkinu meðfram ströndum landsins, eigi ekki að vera eingöngu eða nánast eingöngu bornar uppi af gjöldum á sjávarútveginn sjálfan. Að mínu viti er það hluti af velferð þessa lands að við rannsökum og umgöngumst þessar náttúruauðlindir okkar meðfram ströndum landsins til framtíðar á sem bestan hátt. Það gerum við með samfélagslegri ábyrgð. Mér finnst ekki rétt nálgun að stefna að því að sjávarútvegurinn beri þann kostnað að mestu eða öllu leyti. Það er rangt og ég tel að svo eigi ekki að vera.

Ég hef áhyggjur, virðulegi forseti, af stöðu fiskvinnslufólks í landinu, já, ég hef það, af óöryggi þess. Ég sé ekki að þær breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum sem hér eru lagðar til bæti eða styrki eða treysti stöðu fiskvinnslufólks hvort sem það er í sjávarbyggðum á Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi eða suður með sjó. Ég sé það ekki, herra forseti. Ég hef áhyggjur af stöðu fiskvinnslunnar og fiskvinnslufólksins og kjörum þess vítt og breitt um landið. Því fer fjarri að á því sé tekið í því frv. sem hér er lagt fram. Þvert á móti.