Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:27:44 (5577)

2002-03-05 15:27:44# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ráðherra vitnar til þess sem endurskoðunarnefndin komst að niðurstöðu um varðandi kostnaðargreiðslur. Ég held að hann hljóti að hafa heyrt það sjálfur þegar hann las upp hvaða gjöld það voru að það er langt frá því að vera tæmandi. Veiðieftirlitsgjaldið er t.d. ekki þar inni sem er sannanlega kostnaður og ugglaust mætti áfram telja. Það vitum við bæði. En niðurstaðan er væntanlega að enda þarna og auðvitað geta menn náð samkomulagi um ýmsa hluti. Niðurstaðan er sú að gjaldið eigi að snúast um meira en kostnað, eigi að ná í auðlindarentu í góðu ári því að ég geri ráð fyrir að eitthvað verði látið mæta afgangi. Spurningin er þessi: Var þetta skoðað? Ráðherra vísar í Vatneyrardóminn. Var skoðað hvort þetta mundi breyta réttarstöðu manna og mundi í einhverju ýta við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?

Svo langaði mig af því að hæstv. ráðherra var að vitna í auðlindanefndarskýrsluna. Eftir að búið er að reifa þau gjöld sem til skoðunar koma vegna kostnaðar tengdum sjávarútveginum er rætt um beina álagningu gjalda og talað um að gjöldin þyrftu að hækka verulega frá því sem þá var:

,,... þyrftu því gjöldin að hækka verulega til að þau stæðu undir öllum kostnaðinum. Aðrar leiðir en álagning kostnaðargjalds kæmu einnig til greina. T.d. mætti hugsa sér að ríkið seldi hluta af aflaheimildum hvers árs á markaði og notaði afraksturinn til að standa undir kostnaði við fiskveiðistjórnunina.`` --- Síðan kemur það sem hæstv. ráðherra vitnaði í. --- ,,Þá er einnig álitamál hvort greiða skuli kostnaðargjöldin ein og sér eða hvort þau væru hluti af almennu auðlindagjaldi.``

Í öllu falli, herra forseti, sýnist mér nokkuð ljóst að menn voru auðvitað að tala um að útvegurinn stæði að stórum hluta eða öllu leyti undir kostnaði sínum.