Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:34:21 (5580)

2002-03-05 15:34:21# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Mann gæti grunað að menn væru orðnir dálítið leiðir á þessari umræðu. Menn eru oft að endurtaka sjálfa sig. Mér finnst ég hafa heyrt margar ræðurnar áður og sumir hafa kvartað yfir því að þeir hafi heyrt mína ræðu líka. Þetta er svona eins og gengur. En þetta er málefni sem varðar okkur og ég held að fáir hlutir varði okkur meira þannig að við verðum samt að þreyta bæði okkur og almenning á því að halda áfram þessu tali.

Þrátt fyrir þetta er rétt að fara aðeins yfir stöðuna örfáum orðum. Við hófum að stjórna fiskveiðum, fyrst loðnuveiðunum, 1979 að ég ætla og bolfiskveiðunum 1984. Það voru allir flokkar sem stóðu að því, alls konar ríkisstjórnir stóðu að því. Því var mótmælt mjög víða. Ákveðinn hluti útvegsmanna mótmælti því, ákveðnir landshlutar mótmæltu því o.s.frv.

Ég var í þeim hópi manna sem höfðu í upphafi alls ekki trú á því að aflakvótakerfi, sérstaklega í bolfiskinum, gæti dugað okkur til að ná þeim árangri sem við vorum að reyna að ná og það er rétt að rifja upp hvaða árangri menn eru að reyna að ná með fiskveiðistjórn. Frá því að fyrsta ritgerðin var skrifuð um þessa grein þjóðhagfræðinnar sem kallast fiskihagfræði, hefur það verið gegnumgangandi að menn eru að sækjast eftir að ná því sem þeir kalla ,,Maximum Sus\-tain\-able Yield``, þ.e. við ætlum að reyna að hámarka sjálfbæra nýtingu fiskveiðistofnanna. Út á það gengur þetta allt og það hefur enginn skrifað neitt annað. Við erum að reyna, viljum reyna, þykjumst vera að reyna að hámarka auðinn og arðinn af þessari auðlind. Út á það gengur þetta.

Ég hef sannfærst um það í gegnum árin að fiskveiðistjórnarkerfið gengur ágætlega á sumum sviðum. Það hefur heppnast ágætlega með uppsjávarfiskinn, bæði loðnu og síld, heppnast prýðilega. Það er góð nýting á framleiðslutækjunum, bæði á sjó og landi og arðsemin mjög vel viðunandi sem þjóðfélagið nýtir nú í stórum og góðum mæli.

Ég held líka að rækjuveiðarnar, skelfisksveiðarnar og krabbaveiðarnar komi alveg þokkalega út í mjög mörgum tilfellum og þurfi kannski engar breytingar þar við sérstaklega. En hitt er alveg ljóst að með bolfiskveiðarnar, þorskinn og þorskfiskana, höfum við ekki náð árangri. Við höfum farið aftur á bak, ég hef farið yfir það margsinnis. Við veiðum innan við helminginn af þeim þorski sem við töldum okkur geta veitt. Meira að segja var markmiðið á sínum tíma að reyna að koma þeim í 500 þús. tonn. Þetta er alvarlegasta byggðavandamál Íslands í dag, langsamlega alvarlegast. Það ógnar allri byggð á Íslandi og það er líka mjög alvarlegt efnahagsvandamál fyrir Ísland því þetta er grein sem hefur staðið alla öldina undir útflutningsframleiðslu okkar.

Ég tel líka að allar upplýsingar af Norður-Atlantshafi gangi í eina veru. Þar höfum við verið að stjórna einmitt með aflakvótakerfum og það hefur gengið mjög illa. Við Kanada hrundu slíkar veiðar fyrir 12 árum og það sem verra er, þeir hafa ekki náð þeim á strik þrátt fyrir algert veiðibann á annan áratug. Það gengur mjög illa alls staðar og það er ástæða til að óttast um þetta. Mjög margir vísindamenn fjalla um þetta og mjög margir hafa látið í ljós ótta sinn. Það versta af öllu finnst mér í þessari umræðu er sá ótti sem menn hafa gagnvart því að við séum að úrkynja þennan stofn, við séum að veiða ofan af honum, vaxtarhraði hans fari minnkandi, kynþroskinn fari niður, þessi stofn geti ekki framleitt það magn af fiski sem við áður náðum á Íslandsmiðum. Þetta er uggvænleg sýn og að sjálfsögðu með reynslu Kanadamanna í huga vofir það sverð yfir okkur.

Ég hef viljað benda mönnum á að Bandaríkjamenn eru núna í síauknum mæli að beina sjónum sínum að því að þetta sé ekki svona nákvæmlega eins og við höfum haldið í þessu kerfi að við eigum að beina sjónum okkur eingöngu að magninu, þ.e. massa af fiski og með því að taka bara ákveðinn massa þá sé þetta allt í lagi. Ég vil líka minna á að sjálfur höfundur nýliðunarprógrammsins sem við byggjum þetta allt á, Lord Bermington, varaði við aflakvótakerfinu, hann gerði það í Aþenu fyrir tíu árum, árið 1992, sjálfur höfundurinn og sagði: Þetta kerfi mun vera hættulegt við svona veiðar. Það mun nýtast við uppsjávarfiskana þegar við erum að fara í einsleita stofna af sama árgangi. Hann varaði við þessu.

Ég held að menn sem hafa verið að tala um þetta í alvöru geri sér allir grein fyrir því að þetta er ekki ein vídd, það er ekki eingöngu það að taka ákveðinn massa út úr stofninum. Það verður að líta til þess að a.m.k. fjórar víddir eru í þessu.

Við verðum að líta til þess hvernig við veiðum, þ.e. hvaða veiðarfæri við notum. Við verðum að líta til þess hvar við veiðum, á hvaða fiskislóð við veiðum. Við verðum að líta til þess hvenær við veiðum. Ég held að menn séu að gera sér grein fyrir því mjög víða við Norður-Atlantshaf að við komumst aldrei hjá því að stjórna sókninni í fiskveiðunum. Það var ákaflega bagalegt og mjög stórt skref aftur á bak þegar við lentum í dómi frá 3. des. 1998 þar sem menn vildu túlka þetta svo að þar sem við værum með aflakvótakerfið þá gætum við ekki stjórnað flotanum. Ég held að einhver albrýnasti hlutur sem við þurfum að snúa okkur að núna sé að ná þeim lögum fram sem gera stjórnvöldum kleift að stjórna stærð og afkastagetu flotans. Það er lykilatriði.

Við höfum horft á, eins og ég benti á áðan, að Bandaríkjamenn eru núna að gera miklar rannsóknir einmitt á gildi veiðarfæranna, hvar og hvenær við notum veiðarfærin. Færeyingar frændur okkar hættu við aflakvótakerfið eftir tæplega tveggja ára notkun og töldu það svo augljóst sem margir hafa haldið fram hér á Íslandi að sóunin í kerfinu væri svo skelfileg að ekki væri hægt að búa við það. Þeir hafa farið út í það að stjórna sókninni, að þeir telja, með ýmsum brögðum. Þeir hafa verið að skipta flotanum niður í ákveðna hópa, þeir hafa verið að beina þeim að ákveðnum svæðum o.s.frv. Ég ætla alls ekki að halda því fram, herra forseti, að Færeyingar hafi náð einhverjum endanlegum tökum á þessu. En þeir eru að reyna að þreifa sig áfram í þessu myrkri og þeir eru sannarlega að gera það í mikilli alvöru. Ég hef sjálfur efasemdir um að þeir hafi nógu strangar reglur um flota sinn. Ég held að þeir þurfi að setja upp miklu strangari reglur um flotann. Ég vil einnig minna á og benda á að á vegum tæknideildar Fiskifélags Íslands var búið fyrir mörgum árum, áður en Fiskifélagið var lagt niður í þeirri mynd sem það starfaði, að reikna út togveiðistuðla og reyna þá og þeir virtust passa mjög vel þannig að við eigum þá aðgang að þeim.

Við eigum líka nýja tækni sem er að ryðja sér til rúms og við tókum inn í lögin um stjórn fiskveiða þegar við ræddum um smábátana í síðasta mánuði. Það eru þessi nýju staðsetningartæki sem gera stjórnvöldum kleift að vita nákvæmlega hvar og hvenær hvert skip er. Ég er því sannfærður um að það sem bíður okkar núna og það sem við verðum að snúa okkur að er að endurskilgreina veiðirétt, nýtingarrétt, eignarrétt eða hvað sem við viljum kalla það, núverandi handhafa fiskveiðileyfa. Þeim var úthlutað á grundvelli reynslu. Ég veit ósköp vel, herra forseti, að þar var pottur brotinn. Ég veit að þar fór fram alls kyns valdníðsla en ég ætla ekki að rifja það sérstaklega upp. Það var sérlega átakanlegt á sumum sviðum eins og við úthlutun á rækjunni þegar frumkvöðlarnir allir voru sviptir leyfi til þess að veiða, enda urðu þeir allir gjaldþrota.

Ég lít þannig á burt séð frá því hvort þær veiðiheimildir sem menn fengu voru vel eða illa fengnar, að það sé fásinna, hreinn barnaskapur að láta sér detta í hug að þær veiðiheimildir verði teknar af núverandi handhöfum. Ekki vegna þeirra, herra forseti, heldur vegna þess að það liggur alveg fyrir að skuldir útgerðarinnar eru slíkar að efnahagslífið mundi hreinlega hrynja á einum degi, þannig að þá eru menn að tala um enn meiri hermdarverk. Allt tal um að við þurfum fyrst að þjóðnýta eða taka veiðiheimildirnar af útgerðinni svo við getum farið að breyta stjórnkerfinu er fjarstæða. Það getur aldrei gengið og getur aldrei orðið vegna þess að við munum aldrei geta gert það, aldrei. Það liggur fyrir að við verðum að reyna að endurskilgreina þennan veiðirétt til þess að reyna að ná árangri, til þess að reyna að hámarka þá nýtingu sem við vissum að Íslandsmið gátu gefið okkur. Við verðum að trúa því að Íslandsmið séu þau sömu reyndar í dag og þau voru, svo við getum gengið þannig fram og umgengist náttúruna og fiskstofnana á þann hátt að sú von að við náum fyrri markmiðum sem við höfðum rætist. Þetta er mikið starf og það liggur ekkert einfalt fyrir um það hvar og hvernig við eigum að gera það. En við gerum það ekki nema byrja á því. Við verðum að byrja einhvers staðar.

[15:45]

Ég er alveg viss um að menn munu ekki verða sammála um hvernig við förum fram. Hitt vitum við að það er mjög óhugnanlegt að við erum sannanlega að vinda ofan af fiskstofnunum. Við erum sannanlega að nýta stofnana illa. Við erum sannanlega að sóa mjög miklu. Við horfum framan í hina óhugnanlegu staðreynd að það hægir á vaxtarhraða fisksins og kynþroska hans og það eru óhugnanlegar samlíkingar við það munstur sem við sáum síðustu árin sem veitt var við Kanada áður en allt hrundi. Við eigum að gera þetta og okkur ber skylda til þess vegna þess að á þessari spýtu hangir öll okkar velferð. Það getur allt orðið að ösku þess vegna ef við ætlum að lenda á sömu hrakhólum og Nýfundnalandsbúar. Ekki sækjum við peninga til Ottawa eins og þeir gerðu.

Herra forseti. Aðalumræðuefnið hér hefur verið tillögur um veiðigjald og skattlagningu á sjávarútveginn. Tíminn hefur nú mest farið í það. Ég er einn af þeim sem frá upphafi hafa mótmælt og verið andsnúnir allri þeirri hugmyndafræði sem kemur fram í skýrslu auðlindanefndar frá upphafi til enda, allri. Ég hef harmað að sum samtök atvinnurekenda hafa verið að styðja þessi sjónarmið, t.d. Samtök iðnaðarins. Ég er alveg viss um að bara eitt sé jafnvitlaust og jafnhættulegt íslensku atvinnulífi og að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega, og það er að leggja skatta á innlenda orku. Ég er sannfærður um að þegar við erum búin að koma þeirri löggjöf þokkalega fyrir sem leyfir frelsi í viðskiptum með orku og byggingu orkuvera, muni hin sanna iðnbylting á Íslandi hefjast, hin nýja. Þegar við förum að nota hitahverflana til þess að koma hér upp efnaiðnaði hefst 21. öldin. Ef við ætlum að horfa til þess með þeim augum að byrja á að skattleggja þetta þá erum við að éta okkar eigið útsæði. Það er rangt að skattleggja atvinnugreinar sérstaklega. Það er mjög vont fyrir efnahagslíf þeirra, og það fólk sem talar hér í nafni réttlætisins, er nú eins og þeir sem veifa þeim fána oftast, hefur versta málstaðinn.

Það er engin skylda að atvinnugrein fari endilega að borga tilfallinn kostnað ríkisins. Það er allt í lagi. Það er allt í lagi að setja á einhver kostnaðar- eða þátttökugjöld hingað og þangað. Ríkið hefur fulla heimild til þess. Það er enginn að mótmæla því og ríkið gerir það mjög víða. En það er engin skylda til þess að halda því fram að sjómönnum beri sérstaklega að borga hafrannsóknir frekar en bankaþjónunum. Það er algjör fjarstæða.

Svo segja menn í þessari skýrslu og vitna í auðlindanefndina og étur það hver eftir öðrum: Það er svo nauðsynlegt að gera arðinn af sjávarútveginum sýnilegan. Þetta er einhver mesta blinda sem ég hef heyrt talað um á Íslandi. Ég veit ekki hvað menn ættu að sjá á Íslandi nema einmitt arðinn af sjávarútvegi því að allt það sem hér er er byggt fyrir fisk, allt. Svo þarf að gera arðinn af sjávarútveginum sýnilegan. Þeir eru skemmtilegir svona frasar sem menn taka hver eftir öðrum og éta. Hann er ekki í felum og verður ekki í felum.

Ágætur fulltrúi auðlindanefndarinnar sem talaði hér áðan, Svanfríður Jónasdóttir, flutti þeirra mál og þeirra sjónarmið mjög vel og glæsilega. Ég þekki þau sjónarmið vel. Þau hafa mjög oft komið fram í gegnum tíðina, sérstaklega hjá formanni nefndarinnar meðan hann var seðlabankastjóri og hjá öðrum nefndarmanni sem er mjög áhrifamikill, ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hefur skrifað ótrúlega mikið magn af þessum fræðum. Þessir menn trúa því að arðsemin í sjávarútvegi hafi alltaf keyrt þá út af þegar þeir voru að reyna áratugum saman að handstýra íslensku samfélagi með því að handstýra genginu, með því að handstýra fiskverðinu og öllu klabbinu eins og þeir margreyndu og stóðu að áratugum saman með þeim árangri að þjóðfélagið fór alltaf út í móa á nokkurra missira fresti. (Gripið fram í.) Við höfum besta dæmið um það meðan Ísland var frjálst, meðan Ísland var með frjálsan gjaldeyri og frjáls viðskipti. Þá efndum við til mestu erlendu fjárfestinga sem nokkurn tíma hafa þekkst í sögu þjóðarinnar. Það var þegar við stofnuðum Íslandsbanka hinn fyrri í upphafi aldarinnar. Aldrei hefur komið annar eins auður inn í þetta land miðað við stærð þjóðfélagsins eins og þá. (Gripið fram í.)

Hvað gerðist svo? Vöxtur þjóðarteknanna hefur aldrei verið meiri en á þessum árum. Hvað gerðist? Verðbólgan var núll allan tímann. Hún var bara núll. Það var engin verðbólga vegna þess að við vorum hér með opinn gjaldeyrismarkað. Menn gátu verslað hér frítt og frjálst með hvaða gjaldeyri heimsins sem var. Arðurinn kom hér upp. Hann varð eftir hér á Íslandi. Hann byggði upp þetta land og það hefur haldið áfram alla þessa öld. Allar þessar villukenningar um að arður geti ekki skapast í sjávarútvegi eru því alveg skelfilegar.

Ég hef lýst því yfir í mínum flokki --- það liggur fyrir --- að ég geti ekki stutt þetta. Það er algjört prinsippatriði að styðja ekki auðlindagjald. Ég veit að það er ekki íþyngjandi fyrir sjávarútveginn í dag eða á morgun eða á þessu ári, heldur er það algjört prinsippatriði. Ég geri mér grein fyrir því að það er heldur hvimleitt fyrir hæstv. sjútvrh. þegar einn flokksbróðir hans og vinur vill ekki styðja hann í slíku máli. En svo verður að vera.

Hins vegar vil ég taka það fram, herra forseti, að ég hef ástæðu til að ætla að hæstv. sjútvrh. hafi mikinn vilja og heilmikla getu til þess að höndla hið gríðarlega stóra vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Ég veit að einmitt líffræðimenntun hans gerir honum það kleift langt umfram bókhaldarana tvo sem sátu þar í 16 ár á undan honum og trúðu því að þetta gilti þannig: Einn fiskur upp úr sjónum, einum fiski minna í sjónum. Ég veit að þeir tímar eru liðnir. Ég veit að hann gerir sér grein fyrir því að þessir hlutir eru flóknir, viðamiklir, og að við þurfum að vanda okkur gríðarlega til þess að ná árangri. (Gripið fram í.)