Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:54:14 (5582)

2002-03-05 15:54:14# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Vel kann að vera að það komi misjafnlega niður á útgerðum ef menn breyta því að hafa ákveðinn kvóta, ákveðinn kílóafjölda og fá í staðinn fyrir það ákveðnar sóknareiningar. Auðvitað getur það komið mismunandi niður.

Færeyingar gerðu þetta og gátu komist að þokkalegri sátt um það. Ég ætla að það sé ekki svo mikill vandi sem hv. þm. vill vera láta að umreikna þetta. Ég held að það megi gera nokkurn veginn á nokkrum árum, megi menn þoka sér áfram í þá átt.

Gagnvart nýtingarréttinum þá er hann bara staðreynd hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, eins og ég tók fram áðan. Hvort sem menn vilja kalla þetta eignarrétt eða eignaréttarígildi eða nýtingarrétt þá er hann til staðar. Það er leyfilegt að veðsetja hann. Hann er veðsettur. (Gripið fram í: Hann er veðsettur en það er ekki leyfilegt.) Það er vissulega leyfilegt, hv. þm. Það er sérstaklega tekið fram í lögum að það sé leyfilegt. Hann er veðsettur. Allur sjávarútvegurinn er yfir sig skuldsettur nákvæmlega eins og hann var 1984 þegar við tókum þetta kerfi upp fyrst. Þá var mönnum úthlutað þessu á grundvelli veiðireynslu eða þannig ætluðu menn að hafa það.

Ef við tökum þennan rétt af hrynur efnahagskerfið. En gagnvart eignarréttinum þá vil ég benda á ritgerð eftir læriföður eins annars ágæts þingmanns, Sigurð Líndal, sem birtist í afmælisriti Davíðs Oddssonar, Davíð Oddsson 50 ára, um eignarrétt þar sem hann fer nákvæmlega í gegnum þetta. Þetta eru nú ekki nema 30--40 blaðsíður. Hann fer nákvæmlega í gegnum þetta og skilgreinir nákvæmlega hvernig beri að skilja þjóðareignina og hvernig beri að skilja ábyrgð ríkisins á þessu. Ég vitna til þessarar greinar ef ég fæ tækifæri til þess við 2. umr. þegar tíminn er ótakmarkaður. Þá get ég svo sem lesið þessa grein Sigurðar Líndals hér úr ræðustól.