Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:56:29 (5583)

2002-03-05 15:56:29# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að hv. þm. hafi tekið þátt í því að samþykkja lög þar sem stendur að bannað sé að veðsetja veiðiheimildir. (Gripið fram í.) Það stendur já. Í lögunum um samningsveð stendur að það sé bannað að veðsetja veiðiheimildir. (Gripið fram í: Ekki með skipi.) Það stendur að bannað sé að veðsetja veiðiheimildir, (Gripið fram í: Ekki með ...) hv. þm. og þú samþykktir það, hv. þm. (Gripið fram í: Það er rangt.) (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Ég truflast nú ekkert við þessi frammíköll. En málið er að svona eru lögin. Í þeim stendur að bannað sé að veðsetja veiðiheimildir. Síðan er annað ákvæði í lögunum sem gerir það kleift að menn nýta skipin sem veð og veiðiheimildirnar eru fastar á þeim. En þannig er nú lagasetning á Íslandi og það er henni svo sem ekki til mikils hróss að svona skuli hafa verið farið að.

En ég verð að tala betur við hv. þm. um þau málefni sem við vorum að ræða hér áðan síðar (Gripið fram í.) í þessari umræðu.

(Forseti (GuðjG): Það mundi greiða fyrir þingstörfum ef einn talaði í einu hér í salnum og æskilegast væri að það sé sá sem er í ræðustólnum hverju sinni.)