Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:01:56 (5587)

2002-03-05 16:01:56# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er býsna skrýtið að koma upp í andsvar við hv. þm. út af þeirri sýn sem hann setur fram hér vegna þess að í raun og veru er ég alveg sammála henni. En hnífurinn stendur þar í kúnni sem við erum að leita leiða til að ná þeim markmiðum sem við höfum með sýn okkar og þar erum við alls ekki sammála.

Ég vil spyrja hv. þm. eins, ég held reyndar að hann sé sammála mér: Finnst honum ekki sorglegt að við skulum nota megnið af þessari umræðu í að tala um upphæðir sem útvegurinn þarf að borga í staðinn fyrir að ræða um leiðir, verkfæri og formúlur sem við getum notað til að ná þeim árangri sem við öll auðvitað stefnum að? Viljum við ekki öll byggja upp fiskstofnana og, eins og hv. þm. benti á, koma veiðinni úr 150--200 þús. tonnum upp í --- ja, við skulum vera hógvær og segja 400 þús. tonna veiðigetu á ári hvað varðar þorskinn?