Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:08:35 (5592)

2002-03-05 16:08:35# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í umræðunni í gærkvöldi fór ég yfir það sem er meginefni þessa máls, þ.e. frv. sjútvrh. um það að hér skuli tekin upp ákveðin gjaldtaka af sjávarútveginum og kölluð veiðigjald. Ég fór nokkrum orðum um það hvernig þetta væri uppbyggt og hvaða afleiðingar það gæti haft eins og það er útfært. Ég held að hæstv. sjútvrh. hafi alveg áttað sig á því hvað ég var að fara en gerði ekki mikið úr því vandamáli.

Ég held hins vegar að vandamálið geti verið talsvert eins og útfærslan er uppbyggð. En nóg um það að sinni, ég ræddi það í gær og var það aðeins til ábendingar fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á að keyra þetta mál í gegn. Ég verð hins vegar að lýsa því yfir að ég hef engan áhuga á að keyra þetta mál í gegnum þingið og tel það alls ekki til bóta eins og það er uppsett.

Ég hef ævinlega litið svo á að ef menn ætluðu að taka upp gjaldtöku í sjávarútvegi væri m.a. hægt að gera það með því að fyrna veiðiheimildir en því aðeins að menn næðu þá einhverjum markmiðum í því að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu, hverfa frá því sem við höfum verið að gera, eins og það hefur verið útfært, og ná öðrum og betri markmiðum en við höfum búið við undanfarin ár og áratugi. Það er vissulega alveg rétt sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði í gær, og ég sagði reyndar í gærkvöldi líka, að við höfum engum árangri náð við það að byggja hér upp veiði á fiskstofnunum eða að byggja þá upp, þ.e. hina almennu botnfisksstofna. Það eru vissulega líka ákveðin varúðarsjónarmið sem við þurfum að huga að varðandi nýtingu á íslenska síldarstofninum.

Það sem mig langar að víkja aðeins að núna áður en ég fer í almenna umræðu um þetta mál er m.a. 4. gr. þessa frv., sem ég ræddi ekki í gær, og tekur á því að hér eigi að auka byggðakvótann. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því þó að menn komi hér með tillögu um að auka byggðakvótann því að slík vandamál hafa fylgt útfærslunni á þessu kvótakerfi okkar og hinu frjálsa framsali aflamarksins og aflahlutdeildarinnar að það er ekki furða þó að menn komi fram með 1.500 lestir í viðbót til e.t.v. að bæta í brestina þar sem þeir verða. Ég ætla að segja það um byggðakvótann að sums staðar hefur tekist ágætlega með útfærslu hans en það er hins vegar mjög misjafnt hvernig til hefur tekist.

Ég er almennt á þeirri skoðun að þegar byggðakvóti kemur inn á svæði þar sem atvinnumissir hefur orðið vegna þess að frjálsa framsalið hefur gert það að verkum að atvinnurétturinn hefur verið seldur frá fólkinu eigi að bjóða þeim sem í byggðinni búa, gera út og stunda fiskvinnslu aðgang að þessum heimildum. En um það á að setja almennar reglur þannig að þeir sem eru í útgerð á svæðunum geti nálgast heimildirnar eftir einhverju ákveðnu fyrirframkerfi en það sé ekki fyrir fram markað á einn útgerðaraðila sem síðan hafi alræðisvald um það hvernig heimildirnar eru nýttar eða færðar til. Þetta vil ég segja almennt og nálgast þá það almenna sjónarmið sem stjórnarandstaðan hefur sett, þegar aflaréttindi standi til boða nálgist menn það með einhverju kerfi og einhverju útboði.

Ég held að þannig ætti að útfæra byggðakvótann en láta byggðirnar að sjálfsögðu njóta forgangs þegar hann er færður til enda hefði hann ekki fengið þetta nafn ef ekki væri verið að færa hann tímabundið inn á svæði sem hafa lent í skakkaföllum. Skakkaföllin hafa m.a. stafað af því hvernig kerfið hefur verið útfært og því að ekkert jafnræði er um það milli manna að nálgast aflaheimildir í þessu kerfi. Þeir sem e.t.v. vilja gera út og geta gert út, hafa til þess burði, hafa ekki aðgang að heimildunum nema að leigja þær frá öðrum.

Í gærkvöldi kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar að hann taldi að sumar útgerðir græddu vel á því að leigja þorskkvótann á 160 kr. kílóið, það væri bara ágætisafkoma af því. Út af fyrir sig get ég fallist á að finna megi afkomu út úr því að leigja fiskkílóið á 160 kr. Það á einkum við á vertíðarsvæðunum þar sem stærsti fiskurinn veiðist og sérstaklega á þeim tíma þegar fiskurinn er hrognafullur og lifrarmikill eins og hagar til yfirleitt á vetrar- og vorvertíð hér sunnan og vestan lands. Þess vegna er það alveg nákvæmlega eins og ég hef margbent á úr þessum ræðustól að útgerðin mun færast öll inn á ákveðið svæði landsins og veiða ofan af fiskstofnunum þar sem stærsti fiskurinn býðst, ég tala nú ekki um ef hann býðst jafnframt hrognafullur og lifrarmikill, og það er alveg ljóst að í kvótakerfi hins frjálsa framsals aflamarksins þar sem leiguverð er 160 kr. mun útgerðin smátt og smátt, ef menn ætla að halda þessu óbreyttu, færast inn á þessi svæði landsins. Sér er nú hver byggðastefnan ef menn ætla að hafa kerfið áfram þannig útfært.

Ég held að við þurfum að nýta stofnana með því að veiða úr öllu safninu. Þó að vissulega verði áherslan oft sú að veiða stærsta og besta fiskinn megum við ekki gera kerfið þannig úr garði að sóknin sé beinlínis sérhönnuð til að fara öll í þá sókn. Það er að mínu viti kolvitlaus nýting á fiskstofni.

Gjaldtaka hefur líka verið gerð hér að umræðuefni, m.a. spurði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem var í ræðustól áðan, hverjir borguðu ef það gjald sem núna væri að koma til legðist á hvert fiskkíló. Ég get svarað því: Auðvitað fiskvinnslufólk og sjómenn. Á móti spyr ég: Hverjir hafa borgað leiguverðið í dag? Þetta gjald sem núna er e.t.v. verið að leggja til að taka gæti numið um 5 kr. á kíló í heildina en rétt er þó að taka fram að á móti því verða niðurfelld gjöld sennilega um tæpar 2 kr., þ.e. Þróunarsjóðurinn og þau gjöld sem núna eru vegna aflaheimilda, þannig að raunhækkun gjaldsins væri þá 3 kr.

[16:15]

Eins og kerfið er upp byggt hafa íslenskir útgerðarmenn nýtt sér það til að búa til sérstakt leigukerfi. Ég spyr: Séu áhyggjurnar af þessum 3 krónum, sem ég er út af fyrir sig ekkert sérstaklega að mæla með, svona rosalega miklar, hvað þá um 160 krónurnar? Af hverjum hafa þær verið teknar og hvernig stendur á því að ríkisstjórnin hefur sætt sig við að þessi gjaldtaka skuli eiga sér stað í sjávarútvegi, eingöngu til annarra útgerðarmanna, þeirra eignarréttarhafa sem núna hafa aflaheimildirnar?

Þá held ég við séum í raun komin að stærsta efni þessa máls, þ.e. að með því að leggja þetta mál upp eins og hæstv. sjútvrh. hefur lagt það upp hér er hann fyrst og fremst að festa eignarrétt íslenskra útgerðarmanna, þeirra sem nú eiga veiðiréttinn, í sessi. Íslenskir útgerðarmenn, Landssamband íslenskra útvegsmanna, telja þetta kerfi gott og að aðalmarkmiði þeirra verði náð með því að festa kerfið í sessi. Þeir eru tilbúnir að borga gjaldið sem ráðherrann hefur lýst hér í frv. sínu til þess að festa eignarhaldið hjá sér. (Gripið fram í: Hvar er ráðherrann?) Það fer ekkert á milli mála.

Ég tel að frv. sem við erum að ræða hér, þó í því séu nokkrar aðrar greinar, sé fyrst og fremst þess efnis að festa eignarréttinn í sessi til framtíðar varðandi aflaheimildirnar svo að þeir geti fénýtt þær fram og til baka sem hafa fengið þær í sinn hlut.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom að því í gær og ég held að það sé rétt ályktun hjá honum að u.þ.b. einn þriðji veiðiheimildanna hafi gengið kaupum og sölum en tveir þriðju séu ennþá óseldir. Þá peninga eiga þeir sem þær heimildir hafa fengið eftir að taka út úr sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn skuldar núna tæpa 200 milljarða kr. og skuldirnar hafa farið vaxandi um 60 milljarða á örfáum árum.

Mér finnst því allt í þessu máli neikvætt eins og það er upp byggt. Þess vegna er ekki undarlegt að stjórnarandstaðan hafi sýnt þá ábyrgð að reyna að ná saman um að bjóða upp á sáttaleið. Auðvitað höfum við í stjórnarandstöðunni haft mismunandi skoðanir á því hvernig bæri að vinna sig frá þessu kerfi. Ég og minn flokkur höfum ævinlega haft þá skoðun að ekki þurfi endilega að byggja á aflakvótakerfi heldur beri að færa sig frá því þar sem það er hægt og byrja á að útfæra sérstaka útgerðarflokka, að strandveiðiflotanum og byggðunum verði tryggður ákveðinn forgangur til að njóta staðarkosta sinna.

Þetta held ég að sé mikið mál. Þegar kerfi eins og kvótakerfið hefur lengi verið við lýði þá er ekki auðvelt að breyta því á einum degi. Það þarf ákveðna aðlögun.

Það sem upp úr stendur í þessu frv. er að verið er að færa varanlega eignabönd útgerðarmanna á auðlindinni um langa framtíð.