Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:24:49 (5596)

2002-03-05 16:24:49# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:24]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki miklar áhyggjur af Hraðfrystihúsinu Gunnvöru sem hv. þm. gerði hér sérstaklega að umtalsefni. Það fyrirtæki stendur ágætlega, hefur gert það á undanförnum árum og mun örugglega pluma sig í hvaða kerfi sem við tökum upp. Ef hæfir menn eru við stjórnvölinn þar, bæði til lands og sjávar, mun það pluma sig á sama hátt og Samherjafrændur hefðu plumað sig án tillits til þess hvaða fiskveiðikerfi við hefðum tekið upp. Þeir sem hafa hæfileika til að stunda fiskveiðar og gera út ná árangri, hvaða kerfi sem við búum til.

Hins vegar er það svo að ef, eins og hv. þm. orðaði það hérna, reynslan á að segja okkur hvert við stefnum þá vil ég bara fara fram á það við hv. þm. að hann komi hér síðar í ræðustól og lýsi fyrir okkur, svo það sé einhvers staðar til skjalfest, hvaða byggðir muni á næstunni missa frá sér veiðiheimildirnar. Hvaða byggðir munu lenda í erfiðleikum? Það er miklu betra fyrir þingið að vita það, ég tala nú ekki um stjórnvöld.

Ef hv. þm. sér svona vel fyrir um hvernig kerfið þróast í dag og hvaða afleiðingar það muni hafa þá finnst mér ábyrgð hans mikil ef hann getur ekki sagt okkur fyrir um næstu skref.

Ég tel að núverandi kerfi sé algjört handahófskerfi og við munum ekki hafa hugmynd um hvernig það þróast. Við vitum að það er kvóti á skipum og útgerðarmenn ráða honum, þó kvótinn eigi að heita eign þjóðarinnar. Við höfum hins vegar ekki hugmynd um hvort atvinnuréttur fólksins er til staðar í annarri byggðinni eða hinni nokkrum dögunum seinna eða vikunni seinna.