Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:55:32 (5602)

2002-03-05 16:55:32# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf., Karl V. Matthíasson, hefur lýst því yfir að hann sé á móti því frv. sem hér er til umræðu um að leita sátta um stjórn fiskveiða með þeim aðferðum sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt hér fram. Hann hefur samt sem áður lagt fram ákveðnar hugmyndir ásamt þingflokki Samfylkingarinnar, hugmyndir um það hvernig eigi að ná sátt að þeirra dómi. Sú sátt felst í því, samkvæmt því frv. sem lagt var hér fram og er 3. mál á þskj. 3, að á tíu árum verði allar aflaheimildir útgerða landsins teknar eignarnámi, þjóðnýttar, og síðan yrði þeim úthlutað með ákveðnum reglum sem koma hér fram.

Ég velti því fyrir mér hvernig það geti gengið upp í augum hv. þm. að kippa þannig stoðunum undan öllum stærstu fyrirtækjum í sjávarútvegi í kjördæmi hans bara með einu pennastriki. Við erum hér að tala um Útgerðarfélag Skagfirðinga, stærsta fyrirtækið í Skagafirði, Skagstrending, eitt stærsta fyrirtækið í Húnavatnssýslum, Hraðfrystihúsið í Hnífsdal sem er stærsta fyrirtækið á Vestfjörðum, Hraðfrystihúsið á Hellissandi, Guðmund Runólfsson í Grundarfirði, Soffanías Cecilsson í Grundarfirði og Harald Böðvarsson á Akranesi. Öll þessi fyrirtæki eru undir. Hv. þm. er að leggja til að þessi fyrirtæki verði svipt eignum sínum á næstu tíu árum. Er þetta sú sátt sem hv. þm. sér fyrir sér um íslenskan sjávarútveg, þ.e. að gera eignalaus öll stærstu fyrirtækin í því kjördæmi sem hann ætlar sér að vinna í?