Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:59:36 (5604)

2002-03-05 16:59:36# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:59]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg augljóst mál að dugmikið fólk hefur stjórnað þessum fyrirtækjum. Það er akkúrat málið. Þetta dugmikla fólk hefur lagt allt undir árum og áratugum saman. En það hefur staðið frammi fyrir þeirri óvissu núna á undanförnum árum að það veit ekki hvort það er að koma eða fara í þessari starfsgrein en eitt það versta sem atvinnugrein getur staðið frammi fyrir er að vita ekki neitt um framtíð sína.

Með þeim hugmyndum sem hv. þm. hefur lagt hér fram er verið að skapa þá óvissu að eigendum verði nóg boðið og bara standi ekki í svona rekstri lengur. Þetta er ekki ásættanlegt eða eftirsóknarvert umhverfi fyrir neinn rekstraraðila að búa við.

Þess vegna segi ég að með þessum hugmyndum er verið að setja atvinnu hundruða, jafnvel þúsunda manna í hættu í því kjördæmi sem hv. þm. ætlar að vinna fyrir, það er verið að setja í hættu það starf og þau fyrirtæki sem þetta dugmikla fólk hefur byggt upp á síðustu áratugum. Það er nefnilega enginn misskilningur í því hvernig ég skil þessa tillögu, herra forseti. Í greinargerð þessarar tillögu stendur, með leyfi forseta:

,,1. Úthlutun aflahlutdeilda án endurgjalds verður afnumin í jöfnum áföngum á tíu árum ...``

Herra forseti. Hér stendur að það eigi að afnema á næstu tíu árum eignir þessara útgerðarfyrirtækja og þjóðnýta þær. Ef það verður einhvern tímann að veruleika getur ekkert annað gerst, því miður, herra forseti, en að þeir aðilar sem hafa staðið í þessum atvinnurekstri munu ekki una við þetta lengur og sennilega, því miður, flestir hverjir snúa sér að einhverju öðru þar sem hægt er að starfa í friði að því að byggja upp fyrirtæki.