Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:14:06 (5607)

2002-03-05 17:14:06# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:14]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hái okkur að veiðileyfagjaldið er svo stór hluti, ef ekki stærsti hlutinn, af þessari umræðu. Upphafið að því ferli sem við sjáum hilla undir lokin á hófst með þáltill. um auðlindanefndina þar sem meginatriðið er hóflegt veiðigjald. Það vill bara þannig til að formaður þess flokks sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson tilheyrir og formaður þingflokksins voru flutningsmenn þeirrar tillögu sem hér um ræðir. Þeir komu verulega að því að hefja þetta mál. (Gripið fram í: Meðal annarra.) Meðal annarra. Hv. þm. Gísli Einarsson sat hins vegar hjá við afgreiðslu þessa máls. (Gripið fram í: Nei.) Þess vegna finnst mér svolítið einkennilegt að helsti talsmaður Vinstri grænna í umræðunni skuli leggja svona mikla áherslu á að ekki eigi að fjalla svona mikið um veiðileyfagjaldið og vilji leggja áherslu á einhver önnur atriði. Það er eins og að menn færi sig núna frá þessari áherslu á gjaldið og séu að missa kjarkinn á endasprettinum, þeim sé að snúast hugur. Auðvitað eru mörg önnur atriði, herra forseti, sem skipta miklu máli í fiskveiðistjórninni og hafa verið rædd fyrr á þinginu í vetur og verða auðvitað rædd í framtíðinni líka.

Mig langar til að spyrja hv. þm. hvort hann telji að það gjald sem verið er að leggja hér á sé of hátt eða of lágt eða hvort það sé einhvers staðar nálægt lagi. Eins og menn vita er auðvitað gert ráð fyrir innheimtu í gegnum fyrningu og uppboð í þeim tillögum sem hv. þm. lagði fram í séráliti sínu vegna endurskoðunarnefndarinnar.