Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:17:49 (5609)

2002-03-05 17:17:49# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:17]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski svo sem ástæðulaust að vera að gera mjög mikið úr skoðunum sem hv. þingmenn í þingflokki Vinstri grænna höfðu áður eða málatilbúnaði þeirra þá. En hins vegar hélt þingflokksformaðurinn ansi glögga ræðu í gær þar sem hann lagði talsvert mikið upp úr þeim verðmætum sem væru fólgin í kvótanum, í aflahlutdeildinni og hversu mikil verðmæti væru fólgin í viðskiptum með aflahlutdeildina. Ég gat ekki betur skilið en hann vildi nálgast að einhverju leyti þá fjármuni. Ég get þess vegna ekki skilið þá ræðu hv. þm. öðruvísi en svo að hann sé ekki að leggjast gegn því að lagt verði á veiðileyfagjald, hann sé sammála því að það sé gert, hann hefði viljað gera það einhvern veginn öðruvísi, og að hann geri engar sérstakar athugasemdir við þá upphæð sem lagt er til að verði innheimt á þennan hátt.