Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:30:54 (5617)

2002-03-05 17:30:54# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. ekki almennilega átta sig á því alltaf þegar verið er að ræða um þessi mál að það hangir svo margt á þessari spýtu. Við getum ekki einangrað okkur við einhverja hugmyndafræði. Við verðum að sjá að það er fólk á bak við þetta. Það er fólk að vinna á bak við þetta. Hvernig líður því í þessu umhverfi sem verið er að tala um? Umhverfið verður einfaldlega slíkt, miðað við þær hugmyndir sem hv. þm. hefur lagt hér til, að 20% verða á hverju kjörtímabili teknar eignarnámi af fyrirtækjunum á Eyjafjarðarsvæðinu eins og reyndar alls staðar annars staðar. En við getum nefnt t.d. það sem er nálægt hv. þm. Hvað þýða 20% mikið í aflahlutdeild fyrir Eyjafjarðarsvæðið? Ætli það gæti ekki þýtt svona 15--20 þús. tonn á kjörtímabilinu (Gripið fram í.) sem hv. þm. ætlar að gera upptæk á Eyjafjarðarsvæðinu og úthluta einhverjum öðrum þess vegna? Það er engin trygging fyrir því að Eyfirðingar mundu ná þessu. Það er mikil bjartsýni og óskhyggja, því miður, að ímynda sér að framsýnir menn kæri sig um að vinna undir svona kringumstæðum.