Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:32:11 (5618)

2002-03-05 17:32:11# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:32]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson hefur hreinlega alls ekki kynnt sér þær tillögur sem við höfum lagt fram í sjávarútvegsmálum. Varðandi fyrninguna þá er ég margbúinn að segja hv. þm. að einn þriðji hluti fer á markað. Útgerðin heldur einum þriðja. Byggðatenging er einn þriðji. Hefur hv. þm. ekki meiri trú á markaðsöflunum? Heldur hann ekki að menn muni kaupa á markaði það sem er sett á markaðinn? Það er alveg furðuleg framsetning. Ég veit að það væri annað hljóð í strokknum ef verið væri að tala hér um verslun eða innflutning. Þá væri hann sammála formúlunni. Að tala um þjóðnýtingu er náttúrlega af og frá. Það er verið að tala um byggðatengingu og það er verið að tala um samninga við útgerðirnar að stórum hluta á 20 árum og það er verið að tala um markaðstengingu. Þetta er mjög greið formúla sem engum er vorkunn að vinna eftir. Það er búið að bera þetta undir fleiri manns. Þeim finnst þetta aðgengilegt. Þeir telja sig geta unnið í þessu umhverfi. (Gripið fram í: Hvaða útgerðarmenn ...) Margir.