Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:43:43 (5620)

2002-03-05 17:43:43# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram eru hefðbundnar. Hér er verið að leggja til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og eins og hæstv. sjútvrh. hefur gert grein fyrir er hér verið að leggja til ýmislegt sem verður til sátta í greininni eins og hv. þingmönnum er kunnugt þó svo enginn sé alls kostar ánægður með frv. eins og það liggur fyrir. Svo er raunar aldrei um frv. og lög sem fjalla um það hvernig eigi að skipta jarðneskum gæðum. Þá reyna auðvitað allir hagsmunaaðilar að halda fast um sitt og reyna að færa rök fyrir því að þeirra hlutur sé skertur og rétt sé að taka meira tillit til þeirra sjónarmiða. Því þarf ekki að koma á óvart þó víða heyrist raddir í þjóðfélaginu um að hér sé ekki nógu langt gengið. Eftir sem áður liggur fyrir að hæstv. sjútvrh. hefur lagt mikið á sig og náð árangri í því með þessu frv. að hvetja til sátta í greininni.

[17:45]

Rauði þráðurinn í málflutningi stjórnarandstæðinga er sá að fyrirtæki í sjávarútvegi, stórfyrirtæki í sjávarútvegi, myndarleg fyrirtæki, hafi átt of mikilli velgengni að fagna á umliðnum árum og mikil hætta sé í því fólgin hversu öflug og sterk þau eru og nauðsynlegt sé af þeim sökum að lögfesta einhvers konar gjaldtöku, réttara sagt upptöku á þeim aflaheimildum sem þessi fyrirtæki hafa.

Eins og fram kom hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., Árna Steinari Jóhannssyni, gerir hann ráð fyrir því í tillögum sínum og síns flokks að aflaheimildir verði gerðar upptækar á 20 árum. Það er kallaðar fyrningar. Ef við horfum á þetta dæmi og veltum fyrir okkur hvað þetta raunverulega þýðir erum við að tala um að nærri því einn og hálfur togari við Eyjafjörð verði gerður upptækur á hverju ári. Það er ekki lítil blóðtaka fyrir þessar byggðir. Ef við horfum til þess hversu mörg störf færu í súginn eða til spillis á þessu svæði þá erum við að tala um 80 störf, kannski 100. Í sumum tilvikum væri kannski um að ræða fleiri störf. Menn ættu að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur á byggðirnar við Eyjafjörð, bæði Dalvík, Akureyri og Grenivík, þar sem rekin eru frystihús af miklum dugnaði, þegar fiskvinnslufólki í þessum húsum verður sagt upp vinnunni þannig að það hafi ekki lengur neitt sér til framfæris.

Hv. þm. reyndi að verja tillögur sínar með því að hann gerði ráð fyrir að taka upp annað kerfi. Eins og við höfum rekið okkur á í sambandi við vinstri græna þá eru rökin venjulega sú að fara að tala um náttúruna og vistvæn vinnubrögð. Aðalatriðið er að finna leið til þess að stjórna veiðunum á vistvænan hátt. Þetta er sá tónn sem var í ræðu hv. þm. Eins og orð hafa fallið er varla hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að draga eigi úr togveiðum, draga úr veiðum togara. Ég heyri að þingmaður Akurnesinga, hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson, hefur góðan skilning á því og er mjög glaðhlakkalegur yfir því að nú takist með einhverjum hætti að draga úr veiðum togara. Hann hefur náttúrlega atvinnu af því í fyrirtæki sínu að þjóna bátunum en hugsar þá minna um Harald Böðvarsson.

Það sem kemur fram hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni --- orð hans verða varla skilin öðruvísi --- er að rétt sé að færa veiðiheimildir með afli frá Eyjafirði á þá staði sem liggja betur við línu- eða krókaveiðum. Þess vegna er alveg augljóst að það hrun í atvinnustarfsemi yrði á Eyjafirði við tillögur af þessu tagi er síst ofmetið í þeim málflutningi sem ég legg hér fram. Við erum þess vegna að tala hér um grafalvarlega hluti, ef heilir stjórnmálaflokkar hafa það á stefnuskrá sinni að beita sér fyrir lagasetningu sem sérstaklega beinist gegn atvinnuhagsmunum á tilteknum svæðum, án þess að gera glögga og skýra grein fyrir því sem á bak við liggur.

Ef við horfum með sama hætti til Fjarðabyggðar áttum við okkur á því að það yrði verulegt áfall fyrir byggðirnar þar ef ráðast ætti að og skerða togaraflotann þar með sama hætti og ég gerði hér grein fyrir varðandi Eyjafjörð. (Gripið fram í.) Þess vegna er mjög athyglisvert að velta því upp, velta því fyrir sér, hvað fyrir þessum hv. þm. vakir. Aðalatriðið í þeirra huga er auðvitað að ná peningum út úr sjávarútveginum. Þeir sjá fyrningarleiðina fyrir sér sem réttu leiðina, svo ég upplýsi hv. þm. 3. þm. Vesturl. um það sem hér er verið að ræða.

Þá skulum við víkja að þessum málum með öðrum hætti. Hér hefur mikið verið rætt um hvernig eigi að styrkja byggðirnar og byggðarlögin úti á landi. Þá er verið að tala um byggðirnar við Ísafjarðardjúp. Það er verið að tala um byggðirnar á Austurlandi og líka verið að tala um byggðir t.d. í Norður-Þingeyjarsýslu, svo dæmi séu tekin. Ef við skoðum ástandið úti á landi sjáum við að þau fyrirtæki sem veita mestan stöðugleika á sínu svæði eru sterk sjávarútvegsfyrritæki. Við getum tekið Þormóð ramma á Akureyri, við getum tekið Útgerðarfélag Akureyringa, við getum tekið Samherja við Eyjafjörð, við getum horft til Fjarðabyggðar á sambærileg fyrirtæki þar sem verulegir fjármunir hafa verið lagðir í að byggja fullkomin frystihús sem vinna úr aflanum með allri þeirri þekkingu og tækni sem menn ráða yfir. Þvílíkt hús er líka á Akranesi.

Við vitum að útilokað er að er að standa undir rekstri á slíkum húsum, nema sá afli sem berst að landi sé stöðugur og á bak við hann séu togarar, þetta er okkur kunnugt, eða skip í eigu þeirra rekstraraðila sem standa fyrir frystihúsunum. Ef þessir rekstraraðilar frystihúsanna réðu ekki yfir slíkum skipum er augljóst að þeir mundu ekki leggja í þá fjárfestingu sem nauðsynleg er til að byggja og reka slík frystihús og halda við þeirri þekkingu, tækni og kunnáttu sem nauðsynleg er til að reksturinn geti gengið þar. Forsendan fyrir svo fullkomnum frystihúsum, landvinnslu á nútímagrundvelli, er auðvitað sú að sterk sjávarútvegsfyrirtæki standi þar á bak við.

Við getum líka velt öðru fyrir okkur, þ.e. spurningunni: Hvaða fyrirtæki eru það úti á landsbyggðinni sem nú standa fyrir miklu og öflugu þróunarstarfi, byggja upp nýjar atvinnugreinar og styrkja byggðirnar með þeim hætti?

Nú hlýtur það að vera sérstakt áhugamál fyrir Vinstri græna, sem hafa lýst sig mjög andvíga því að stóriðja rísi risið og flutt um það mjög mælskar ræður hér úr þeim stól sem ég nú stend í, að reyna að finna einhver ráð til þess að skapa atvinnutækifæri á öðrum forsendum en álvinnslu. Maður skyldi ætla að þeir tækju því fagnandi ef til væru í landinu fyrirtæki úti á landsbyggðinni sem væru rekin með þeim myndarbrag að þau hefðu ráð á að þróa fiskeldi frá grunni. Við höfum séð hvað slík samvinna hefur þýtt og gilt við Eyjafjörð, samvinna sjávarútvegsfyrirtækjanna þar og raunar víðar á landinu við Hafrannsóknastofnun og við sjútvrn., í sambandi við lúðueldið. Við fáum alltaf miklar og góðar fregnir af því hvernig það hefur gengið, þeirri framúrskarandi vinnu sem þar hefur verið unnin. Þar erum við fremstir í veröldinni sem veldur því að nú erum við að færa út kvíarnar og fjárfesta í öðrum löndum, einmitt í lúðueldinu.

Hið sama er nú uppi á teningnum í sambandi við laxeldið. Þessi sterku sjávarútvegsfyrirtæki eru að þreifa fyrir sér með að hefja laxeldi í stórum stíl á Austurlandi og með þeim hætti að breikka grunninn sem þar er fyrir fiskvinnslunni. Við getum sérstaklega talað um Neskaupstað og laxeldið í Mjóafirði í því sambandi, Síldarvinnsluna í Neskaupstað og frystihús þeirra þar, þó svo að hugmyndin sé að flytja laxinn út ferskan þá yrði hann unninn þar. Í síðustu viku var haldin merkileg ráðstefna á Ísafirði og það sem menn stefna að nú er að þróa þorskeldi frá grunni, seiðaeldi og hvaðeina, til að við Íslendingar getum einnig á þeim vettvangi verið á undan öðrum þjóðum vegna þess að a.m.k. ég trúi því --- ég á mér marga skoðanabræður í þeim efnum --- að eina leiðin til að við getum rekið þorskeldi með árangri sé að byrja á byrjuninni, ná tökum á hrygningunni og ferlinum frá grunni.

Hvaða fyrirtæki og hvaða menn standa þarna í broddi fylkingar? Enn komum við að því að þar ganga þeir sem stjórna hinum góðu, stóru sjávarútvegsfyrirtækjum fram fyrir skjöldu. Þeir eru reiðubúnir til þess að leggja það mikið fé í þessar tilraunir að þeir vilja gjarnan sjá fyrir sér að eftir 10 ár verðum við kannski menn til að framleiða 100--200 þúsund tonn af eldisþorski. Skýringin á því að við eigum sérstaklega að þreifa fyrir okkur á þessu sviði er sú að Íslendingar kunna flestum þjóðum betur að verka og meðhöndla þorsk og kunna á markað með þorsk. Þarna erum við, það sem kallað er, á heimavelli. Ég veit að Akurnesingar skilja hvað heimavöllur er. Þarna búum við yfir mikilli þekkingu sem við eigum að nýta okkur. En auðvitað er forsendan fyrir því að menn séu reiðubúnir til að leggja fram fjármuni og vinnu í slíkt þróunarstarf og rannsóknastarf að þau fyrirtæki sem starfa á þessum vettvangi hafi traustar rekstrarforsendur og hægt sé að byggja á þeim til framtíðar.

Það gefur augaleið að ef það sjónarmið yrði ofan á hér á Alþingi að á næsta ári yrði tekin ákvörðun um að taka tuttugasta hvern þorsk af öllum útgerðum á landinu og úthluta eftir pólitískum geðþótta, eða leyfa mönnum að kaupa þennan þorsk með öðrum hætti. --- Hv. 5. þm. Vesturl., Gísli S. Einarsson, talaði um það í gær að það væri hæfilegt að auðlindaskatturinn, eins og hann sá fyrir sér, væri kannski 36 kr. á kíló. --- Þá sjáum við það auðvitað undir eins. Það er útilokað að slík fyrirtæki hafi bolmagn til að vinna þá vinnu sem nauðsynleg er, leggja í þá fjárfestingu sem nauðsynleg er, í rannsókna- og þróunarstarf sem ég var að tala um áðan og byggja upp þorskeldi sem gæti orðið grundvallaratvinnuvegur hér á landi. Slíkt mundi styrkja okkur til að standa betur að vinnslu sjávarafla en við nú gerum, eyða sveiflum og styrkja stöðu okkar á alþjóðlegum matvæla- og fiskmarkaði. Þetta er auðvitað vinna sem við þurfum að ráðast í.

Ég er sammála því sem hér hefur verið sagt að auðvitað er líka jafnbrýnt að við reynum að leita allra ráða til að afla upplýsinga um lífríki hafsins og reyna að stilla veiðum svo í hóf að þorskstofninn og aðrir fiskstofnar geti styrkst og við göngum ekki of hart að stofnunum.

Þekking okkar er auðvitað vafasöm. Ég tók eftir því og hygg að ástæða sé til að gefa því gaum að hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, talaði um að önnur lögmál giltu um bolfisk en uppsjávarfisk í sambandi við það hvernig veiðum er stjórnað. Á hinn bóginn er augljóst, af þeirri tillögu sem hér liggur fyrir frá formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, hv. þingmönnum Össuri Skarphéðinssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Sverri Hermannssyni, að þeir hugsa sér að veiðiheimildir allra Íslendinga verði gerðar upptækar á næstu 20 árum, ríflega einn togari á Eyjafirði á ári og síðan verði þessum veiðiheimildum endurráðstafað í formi aflahlutdeildarsamninga á grundvelli jafnræðis byggðanna og útgerðar til nýtingar þeirra. Hér er beinlínis gert ráð fyrir því að halda kvótakerfinu eins og það er, þ.e. með hliðsjón af því hvernig eigi að stjórna veiðunum, ef við horfum ekki til þess hverjir eiga þessar aflaheimildir. Þetta er athyglisvert í ljósi ummæla hv. 4. þm. Vestf., Guðjóns A. Kristjánssonar um þessi efni.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé fyrir okkur að efla starfsemi Hafrannsóknastofnunar. Mér hefur á stundum dottið í hug og spurt sjálfan mig hvort kannski væri gerlegt að segja bara: Nú skulum við gefa allar veiðar frjálsar. Þegar ég var í Menntaskólanum á Akureyri var settur fram fyrri partur:

  • Augum renna ungir menn
  • upp á kvennavistir.
  • Og 1. bekkingur botnaði:

  • Kapphlaupið mun byrja senn,
  • hverjir verða fyrstir?
  • Það er auðvitað hugsanlegt að stjórna veiðum með þeim hætti að hér séu einungis sóknarkerfi. Þá komum við hins vegar að því sem hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, sagði. Það er nauðsynlegt, ef menn velta fyrir sér annar slags stjórn á fiskveiðum en nú er, að unnt og hægt sé að fækka skipunum. Samkvæmt þeim hæstaréttardómi sem fallið hefur er það hins vegar ekki gerlegt. Þannig þýðir ekki að tala um það sem einhverja leið í þessum efnum enda er sá málflutningur sem hér hefur verið allur á þeim forsendum og á þeim grundvelli að halda eigi kvótakerfinu í grófum dráttum. Spurningin sem menn hafa aðallega sett fram er um það sem kallað er eignarréttur. Menn geta svo sem velt vöngum yfir því hvernig þeir sjá það fyrir sér en aðalatriðið er að stjórnarandstaðan vill ekki hugsa sér að stöðugleiki sé í fiskveiðum hér á landi og leitar allra ráða til þess að brjóta þann stöðugleika niður sem hér hefur verið síðustu ár og vinna með því þjóðinni mikið tjón og brjóta niður arðbæran sjávarútveg á Íslandi.