Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:08:20 (5625)

2002-03-05 18:08:20# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:08]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held ég hafi aldrei hlustað á ræðu sem í hefur verið fólgin jafnmikil vantrú á fyrirtækjum í heimabyggð og hjá hv. þm. Hann er sannfærður um að ef einhvers konar jafnræði komist á til aðgangs að auðlindinni, þá muni Akureyringar og Eyfirðingar tapa öllum veiðiheimildum sem verði í boði á því svæði. Það fari allt eitthvað annað og þeir geti ekki verið með í þessu. (Gripið fram í: Einn og hálfur togari.) Einn og hálfur togari. Í þessu felst ekkert annað en vantrú á því að hægt sé að reka fyrirtæki almennilega á þessu svæði. Ég efast ekkert um að þeir geti gert hlutina jafn vel og aðrir þó að þeir hafi safnað til sín veiðiheimildum með 25% forskoti á undanförnum árum þegar sú regla var í gildi, fengu þorskinn plús 25% ef þeir keyptu hann til sín. Þeir hafa leigt frá sér veiðiheimildir á síðustu árum upp á líklega 28 þúsund þorskígildistonn. Það eru ekki veiðiheimildir sem menn hafa verið að nýta sjálfir í heimabyggð.