Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:17:40 (5633)

2002-03-05 18:17:40# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur dregist talsvert en hún er smám saman að skýrast. Mér fannst hún skýrast til mikilla muna í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals og í andsvari sem hv. þm. átti áðan.

Þar einmitt kom hann inn á það grundvallaratriði sem umræðan hefur að hluta til farið í, þ.e. hvernig eignarrétti að auðlindinni er háttað og hvernig menn ætla að skipa þeim málum til lengri tíma. Í þessari umræðu hefur komið fram að Sjálfstfl. með hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar hefur ekki áhuga á að fara þá leið sem auðlindanefnd lagði til, þ.e. að festa ákvæði um þjóðareign á auðlindinni í stjórnarskrá.

Hv. þm. Halldór Blöndal svaraði þessu með mjög skýrum hætti áðan. Hann telur að eignarréttindin séu betur komin í höndum útgerðarmanna og ég held að mjög mikilvægt sé að þetta liggi fyrir. Það er farið að draga upp mjög skýrar línur um það hvar ágreiningurinn í þessari umræðu liggur. Hann liggur að stórum hluta í því að við í stjórnarandstöðunni --- samkvæmt því sem hv. þm. Halldór Blöndal orðaði svo skemmtilega --- hefðum mikinn áhuga á að brjóta niður greinina, sjávarútveginn, mikinn áhuga á að brjóta niður stöðugleikann og mikinn áhuga á því að koma þjóðinni almennt á kaldan klaka, ef ég reyni að endursegja þau orð með mínum hætti. Þetta kom fram í ræðu hv. þm. áðan, og þetta er einmitt grundvallaratriði.

Í umræðu í gær gerði ég tilraun til þess að fá fram hjá hæstv. sjútvrh. af hverju leið auðlindanefndar í þessum efnum hefði ekki verið farin. Þar kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann hefði ekki áhuga á því að fara þá leið þó að hann svaraði ekki jafnskýrt og hv. þm. Halldór Blöndal gerði áðan. Nú liggur hins vegar alveg ljóst fyrir hver vilji Sjálfstfl. er í þessum efnum. Hann vill koma eignarréttindunum á auðlindinni varanlega í hendur útgerðarmanna. Annars hefðu menn farið leið auðlindanefndar í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir.

Þá hefur það ekki síður vakið athygli mína í þessari umræðu að þeir hv. þm. Sjálfstfl. sem tekið hafa til máls hafa yfir höfuð, að einum þingmanni undanskildum, ekki viljað ræða það mál sem hér er á dagskrá. Þeir hafa ekki viljað ræða þá hugmynd sem hér er uppi um að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega. Að hv. þm. Kristjáni Pálssyni undanskildum hefur enginn rætt þessa hugmynd heldur farið almennt yfir það hvað stjórnarandstaðan er vond, hvað hún hefur slæmar hugmyndir og þær áherslur sem hún hefur í efnahagslífinu um að brjóta niður stöðugleikann o.s.frv. En enginn hefur viljað ræða þær hugmyndir sem ríkisstjórnin er hér að bera fram um að sjávarútvegurinn skuli skattlagður sérstaklega. Þessi hugmynd gengur ekki út á annað en að viðbótarskattar séu lagðir á sjávarútveginn. Því kom það mér sérstaklega á óvart í umræðum áðan að menn skyldu telja að sú leið sem hér er farin væri sérstaklega uppbyggileg fyrir útgerð og vinnslu við Eyjafjörð. Það kom einnig fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að ef sú leið yrði farin sem til að mynda Samfylkingin hefur lagt upp með og lagt á áherslu mundi að hans mati tapast einn og hálfur togari á hverju ári. Það segir okkur að hv. þm. hefur ekki næga trú á heimabyggð sinni og þeim fyrirtækjum sem þar starfa því að okkar hugmyndir ganga út á það eitt að koma á jafnræði í þessum efnum, að auka aðgengi að auðlindinni og tryggja hagkvæmni eins og kostur er.

Okkar hugmyndir eru ekki fullkomnar frekar en aðrar hugmyndir, og verða það ekki. Hins vegar eru þetta hugmyndir okkar um hvernig koma megi þessum málum í varanlegt horf því að við verðum að átta okkur á því í þessari umræðu að við þurfum smám saman að festa í sessi hvernig við ætlum að stjórna, og skipuleggja sjávarútveginn til frambúðar.

Menn er sammála um að með einhverjum hætti verði að stjórna sjávarútveginum. Menn eru almennt sammála um að verði það ekki gert sé hættan á ofveiði slík að við það verði ekki unað. Þess vegna erum við komin að ákveðnum tímapunkti í þessum efnum, til að mynda vangaveltum um hvernig við ætlum að haga eignarrétti að auðlindinni. Það er grundvallarspurning. Menn geta verið sammála um að fara tiltekna leið. Það kom fram í mjög heiðarlegu og skýru svari hv. þm. Halldórs Blöndals að hann telur að þessi eignarréttur eigi að vera á hendi útgerðarinnar. Við í stjórnarandstöðunni höfum hins vegar lagt á það ríka áherslu að þessi réttur sé í þjóðareign en verði úthlutað með ákveðnum hætti tímabundið. Mér finnst mjög gott að þessi ágreiningur skuli vera kominn fram. Mér finnst dálítið gott að þetta sé smám saman að skýrast.

Ég skal taka undir að það geta verið rök fyrir báðum leiðum. En ég held að það sé mjög hættulegt að afhenda eignarréttinn að veiðiheimildum með þeim varanlega hætti sem mjög líklega verður afleiðingin ef þetta frv. verður lögfest. Þá gef ég mér það líka eins og ég sagði í umræðunni í gær --- það er kannski óraunhæft mat ef svo má að orði komast vegna þess að í ljósi sögunnar sést að menn breyta helst þessum reglum tvisvar sinnum á vetri --- en ég gef mér það að þeim hugmyndum sem hér eru settar fram sé ætlað að standa. Þeim sé ætlað að skapa varanlega festu og ég met það þannig að það leiði til þess að smám saman muni þessi eignarréttur festast varanlega í sessi eins og hér hefur komið fram.

Það kemur mér líka dálítið spánskt fyrir sjónir, og þá ekki síður að hlýða á, þegar hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa talað sérstaklega um að einhverjar breytingar á stjórn fiskveiða muni hugsanlega skaða smærri sjávarbyggðir. Ég held að það kerfi sem nú er við lýði tryggi að þessar smærri byggðir muni halda áfram að skaðast. Ég held að ekki þurfi nýtt kerfi til í þeim efnum þannig að mér finnst dálítið sérstakt að leggja það þannig upp að verði einhverjar breytingar gerðar á þessum reglum muni þær leiða til skaða smærri byggða. Við vitum alveg hvernig fólksflóttinn hefur verið. Við vitum alveg að þegar tækifærin hafa verið tekin frá þessum smærri byggðum með því að loka aðganginum að auðlindinni fara tækifærin úr byggðunum og fólkið færir sig náttúrlega um set. Það er sjálfgefið. Þegar tækifærin fara situr fólkið ekki eftir heldur leitar á ný mið. Það er mjög eðlilegt. Það er leiðinlegt þegar menn setja fram röksemdir af þeim toga sem við höfum hlýtt hér á að hugsanlegar breytingar kunni að skaða smærri sjávarbyggðir eins og núverandi ástand hafi ekki gert nóg í þeim efnum.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég held að við séum komin að þeim tímapunkti að við þurfum að reyna að ákveða til lengri tíma hvernig við viljum haga þessum málum. Hæstv. sjútvrh. hefur komið fram með sínar hugmyndir. Ég held að ekki sé á neinn hallað þó að því sé haldið fram að þær geti seint orðið grundvöllur sátta, en þetta eru a.m.k. hugmyndir hæstv. sjútvrh., þetta eru hugmyndir ríkisstjórnarinnar um það hvernig eigi að skipa þessu til lengri tíma. Það er ekki hægt að lesa öðruvísi í þessar hugmyndir en þannig að ætlunin sé að festa varanlega eignarheimildir á veiðiréttindum í höndum útgerðarmanna. Það er einfaldlega þannig. Í þessum efnum skilur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og í mínum huga er mjög gott, mjög skynsamlegt fyrir umræðuna, að þessi ágreiningur sé með skýrum hætti kominn fram í dagsljósið.