Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:31:44 (5636)

2002-03-05 18:31:44# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að gera lítið úr skoðunum lögfræðinganna Sigurðar Líndals og Þorgeirs Örlygssonar. Hins vegar held ég að við verðum að hafa það í huga þegar við fjöllum um þessi atriði sérstaklega að frá því að þeir skiluðu skýrslu sinni til auðlindanefndarinnar hefur gengið dómur í Hæstarétti sem almennt gengur undir nafninu Vatneyrardómurinn sem skýrir mjög vel stöðu þessarar löggjafar, hvað heimilt er að gera, hvað hinu opinbera er heimilt að gera og hvað ekki. Ég held þar af leiðandi að staðan sé miklu skýrari en áður. Ef teknir eru aðrir dómar inn í þetta líka, þá hefur auðvitað mjög mikið gerst í dómskerfinu frá því að við hófum þessa vinnu þegar þál. um auðlindanefndina var samþykkt og auðlindanefndin hóf sín störf. Ég held því að hv. þm. þurfi ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þessum atriðum. Það er ekki verið að gera neinar breytingar og Vatneyrardómurinn hefur skýrt þessa stöðu mjög vel.