Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:43:46 (5639)

2002-03-05 18:43:46# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:43]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi farið býsna nákvæmlega með afstöðu hv. þm. í þeim örfáu orðum sem ég lét um það falla. Að minnsta kosti sé ég ekki neinn mismun á því sem hann hefur verið að fara yfir í dálítið löngu máli. Ég held hins vegar að sú talnaleikfimi sem hann og aðrir þingmenn hafa verið með sé vafasöm þótt ég ætli ekkert að fetta fingur út í það þótt menn séu í slíkri hugarleikfimi ef þeir telja að það hafi eitthvert gildi fyrir þessa umræðu.

Það sem ég var að tala um er að hv. þm. er einn af þeim sem með flutningi þáltill. hófu þetta ferli þar sem þyngdarpunkturinn snerist um auðlindagjald, veiðigjald eða veiðileyfagjald á útgerðina, flokkur hans er með tillögur um veiðigjald eins og hann var einmitt að lýsa rétt áðan í sínum tillögum. Ég hef bara verið að reyna að átta mig á því hvort flokkurinn væri ekki enn þá á þeirri stefnu og ef svo er, þá er það út af fyrir sig bara gott, þá er víðtæk sátt um að leggja á veiðigjald. Menn deila hins vegar um hvernig eigi að gera það og út af fyrir sig er það skiljanlegt.

En það sem ég hef líka verið að reyna að komast að er hvort þeir telji að það gjald sem lagt er til í frv. sem hér er til umræðu sé of hátt, of lágt eða hvort það sé nokkuð nærri lagi. Ég held að það skipti auðvitað máli fyrir umræðuna að fram komi hvort þeir aðilar sem styðja það að lagt sé á veiðileyfagjald telji að tillagan um það hversu hátt gjaldið eigi að vera sé eitthvað nærri lagi eða ekki. Þess vegna vil ég spyrja þingmanninn: Telur hann gjaldið vera of hátt, of lágt eða telur hann það vera nokkuð nærri lagi?