Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:46:58 (5641)

2002-03-05 18:46:58# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að út frá því reikningsdæmi sem hv. þm. var með hér í upphafi geti hann fært rök fyrir því að þetta séu einhverjar umtalsverðar upphæðir sem hann á þeim forsendum vill ná í og koma eitthvert annað. Ég ætla ekkert að fara að deila við hann út frá þeim forsendum sem hann hefur verið að gefa sér. Ég er einungis að spyrja hann að því hvort hann telji það gjald sem verið er að leggja til að lagt verði á, sé of hátt eða of lágt eða hvort það sé nærri lagi.

Hins vegar er ekki rétt hjá honum að gjaldið sé einungis svipað og það gjald sem lagt er á í dag. Fyrst er auðvitað til að taka að þróunarsjóðsgjaldið mun renna út innan tveggja ára og þá þyrfti að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort það ætti að halda áfram eða ekki.

En miðað við það gjald sem lagt er á nú yrði auðlindagjaldið eða veiðigjaldið sem lagt yrði á samkvæmt þessu frv. þegar allt verður komið til framkvæmda, tvisvar og hálfum sinnum hærra en núverandi gjald. Ég spyr því hv. þm.: Telur hann það vera of hátt, of lágt eða nokkuð nærri lagi?