Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:48:25 (5642)

2002-03-05 18:48:25# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að við reynum að stilla dæminu rétt upp. Við erum að leggja til breytt kerfi í grundvallaratriðum miðað við það sem við búum við nú. Við teljum ekki að frv. hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar komi til móts við þær hugmyndir sem við og stjórnarandstaðan byggir á.

Það sem ég er að reyna að sýna fram á er að nú þegar eru lögð á útgerðina í landinu miklu hærri gjöld en gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar. Þessi gjöld og þessar upphæðir, þetta gríðarmikla fjármagn, rennur hins vegar í ranga vasa. Það rennur í vasa kvótahafans og inn í fjármagnskerfið. Við viljum hins vegar beina því til samfélagsins í ríkari mæli en nú er.