Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 19:04:26 (5648)

2002-03-05 19:04:26# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[19:04]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur farið fram og tekið hefur tvo þingdaga. Hún hefur verið merkileg og að flestu leyti mjög málefnaleg. Auðvitað hafa einstaka skrýtin atriði komið upp, sérstaklega varðandi eignarréttinn og hugsanlega eignarréttarþróun. Umræðan hefur að mínu mati ekki verið eins og menn hefðu getað búist við miðað við yfirlýsingar stjórnarandstöðunnar frá því í síðustu viku, um að hér væri allt í báli og brandi og engin sátt um eitt eða neitt í sjávarútveginum.

Mér finnst hafa komið mjög skýrt fram í umræðunni að það er víðtækur stuðningur við að leggja á auðlindagjald eða leggja á veiðigjald þó að sá stuðningur sé ekki algildur. Það er auðvitað er lýsandi fyrir það hversu umdeilt þetta atriði hefur verið og það hversu mikið þeir sem hafa verið á móti auðlindagjaldi hafa þurft að gefa eftir til að nálgast þá sem hafa verið hvað ákafastir í að leggja á veiðigjaldið.

Hins vegar greinilegt að menn greinir á um hvernig eigi að leggja gjaldið á. Fyrst og fremst er auðvitað um að ræða veiðigjaldsleiðina sem lýst er í frv. og hins vegar er um að ræða ýmis afbrigði af fyrningarleið þar sem uppboð eru ríkjandi þáttur. Eins og fram kom í umræðunum fyrir stuttu eru uppboð á veiðiheimildum nokkuð sem ég óttast. Ég tel þau vera til þess fallin að knýja seinustu krónuna úr buddu fiskimannanna til þess að viðhalda aflaheimildum sínum og geta verið sérstaklega hættuleg hinum veikari byggðum og að þeir sem búa í þéttbýlinu, þar sem betri veð eru, muni eiga miklu auðveldara með að keppa um heimildirnar en þeir sem búa í hinum smærri byggðum úti á landsbyggðinni.

Ég hef hins vegar leitað eftir því sérstaklega í umræðunni að fá fram sjónarmið hv. þm. varðandi upphæð gjaldsins. Það hefur komið greinilega fram hjá þingmönnum þingflokks Vinstri grænna að þeir eru almennt fylgjandi því að leggja á auðlindagjald, leggja á veiðigjald, en að þeirra eigin sögn er það ekki útgangspunktur í þeirra hugsun. Ég hef ekki orðið var við að þeir geri sérstaka athugasemd við upphæðina, hvorki í þá veru að hún sé of há né of lág. Þó að þeirra útfærsla væri kannski öðruvísi og gæti komið út á annan hátt mundi maður ætla að uppboð á stórum hluta heimildanna yrði til þess að gjaldið yrði hærra vegna eðlis uppboðanna eins og ég fór yfir áðan. En þeir hafa ekki gert athugasemdir við upphæð gjaldsins.

Hins vegar hefur verið annað uppi á teningnum hjá hv. þm. Samfylkingarinnar, sem á annað borð hafa svarað þegar ég hef leitað eftir þessu. Hv. þm. Gísli S. Einarsson telur gjaldið of lágt og að ekki sé gengið nægjanlega langt í að láta atvinnugreinina greiða kostnað Hafrannsóknastofnunarinnar. Væri farið út í það að láta gjaldið greiða allan kostnað Hafrannsóknastofnunar, eins og hann yrði þegar þetta frv. yrði að fullu komið til framkvæmda, þyrfti gjaldið væntanlega að vera svo sem 600 millj. kr. hærra. Hv. þm. Gísli S. Einarsson væri þá að tala um gjald, miðað við stöðu á yfirstandandi fiskveiðiári, upp á 2,7--2,8 milljarða.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir velti hér upp tölum um kostnaðinn og talaði um tölur á bilinu 4 milljarðar til 5,5 milljarða, sem nefndar hefðu verið í þessari umræðu og koma fram í gögnum auðlindanefndarinnar. Hún vildi hins vegar ekki gera þessar tölur að sinni tillögu og sagði í ræðunni að hún hefði sjálf nefnt 3 milljarða sem kostnaðinn. Þá ætti væntanlega eftir að bæta ofan á það einhverju sem menn mundu skilgreina sem sjáanlega hlutdeild alls almennings í auðlindarentunni.

Gjaldið sem frv. gerir ráð fyrir að yrði greitt ef lögin væru komin til framkvæmda á þessu ári er hins vegar upp á ríflega 2,1 milljarð. Ég get ekki séð eðlismun á þeim upphæðum sem annars vegar frv. gerir ráð fyrir og þeim upphæðum sem hv. þm. hafa verið tilbúnir til að nefna við þessa umræðu. En þó ber auðvitað að halda því til haga að hv. þm. Samfylkingarinnar hafa haft uppi umræðu um að gjaldið ætti að vera hærra.

Ég verð að öllu samanlögðu að segja að það er mun meiri samstaða um þessa útfærslu en ætla hefði mátt í upphafi. Sé meiningarmunurinn um hvernig eigi að útfæra hlutina ekki meiri en þetta, að gjaldið ætti að vera 3 milljarðar í staðinn fyrir 2 milljarðar, held ég að við séum komin nálægt því að ná sátt um þessi mál, a.m.k. víðtækari sátt en áður var um fiskveiðistjórnina. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu hefur helsti ásteytingarsteinninn verið veiðigjald.

Auðvitað hafa fleiri atriði í þessu frv. komið til umræðu, t.d. hafa atriði eins og kvótaþakið og stærð smábátanna sérstaklega verið nefnd og örlítið fyrr í umræðunni var fjallað um breytinguna varðandi rannsóknir Hafró. Þetta eru atriði sem auðvitað verða skoðuð í nefndinni. Þó ættu menn að hafa í huga, varðandi kvótaþakið, að með því er atvinnugreininni auðveldað að bregðast við þeim aðstæðum að þurfa að greiða gjald sem hún hefur ekki greitt áður svo að hún geti hagrætt og aukið arðsemi sína til þess að standa undir þessari gjaldheimtu. Ég held að það væri rétt fyrir hv. þm. að hafa það í huga við störf sín í hv. sjútvn.

Ég ætla því að leyfa mér að vona að starfið í nefndinni og í síðari umræðum þingsins verði á málefnalegum nótum og að þá muni skýrast enn betur hve víðtæk sátt er um þessi grundvallaratriði þó að menn deili auðvitað um aðferðafræði. Ég sé út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við að deilt sé um hvernig þessir hlutir gerast en vonast til að vinnan á næstu vikum muni skila okkur vel áfram.