Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 19:13:02 (5649)

2002-03-05 19:13:02# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[19:13]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Í tillögum Samfylkingarinnar er gert ráð fyrir því að ein útgerð leigi ekki annarri útgerð kvóta með þeim hætti sem nú er gert. Ég bendi á að þeir fjármunir sem útgerðir kvótalítilla báta eða jafnvel kvótamikilla greiða eins og er til annarra útgerða eru alveg gífurlega miklir. Ég er ansi hræddur um að það skipti hundruðum milljóna, jafnvel milljörðum, a.m.k. á þeim tíma sem þetta hefur verið við lýði.

Eru ekki uppboð í gangi núna á veiðiheimildum? Ég spyr. Eru ekki kvótalitlar útgerðir sem sækjast eftir afla að kaupa leyfi til að veiða fisk hjá öðrum útgerðum eftir uppboðsleiðum? Ég spyr að því. Ég hélt að það væri þannig. Þannig er komið uppboðskerfi inn í sjávarútveginn, alveg bullandi. Því mun ekkert ljúka verði þetta frv. að lögum, herra forseti.

Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra aftur hvort hann telji ekki eðlilegt að byggðakvótinn fari á uppboð og að andvirði hins selda fari í sjóði viðkomandi sveitarfélaga. Ekki veitir þeim af.