Ferðakostnaður foreldra barna á meðferðarstofnunum

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 13:46:35 (5658)

2002-03-06 13:46:35# 127. lþ. 89.1 fundur 398. mál: #A ferðakostnaður foreldra barna á meðferðarstofnunum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Rétt er að hafa í huga að hér er ekki um fíkniefnaneytendur að ræða nema í tiltölulega fáum tilfellum, sem betur fer. Yfirleitt eru þetta börn með annars konar hegðunarvanda og ekki sjúk af fíkniefnaneyslu. Þau eru að vísu til á einu heimili sem var sérstaklega sett á fót til þess að veita fíkniefnaneytendum meðferð en það er ekki hið almenna.

Færa má rök að því að fjárhagur heimilanna beri ekki skaða af því þó að barn sé vistað á meðferðarheimili af því að náttúrlega sparast ýmis kostnaður á móti. Langflest þessara barna sem vistuð eru fá einhvern bata, jafnvel góðan. Ég þekki þetta dæmi sem hv. fyrirspyrjandi nefndi og þar var um að ræða, ef ég veit rétt, barn sem vistað var austur á landi en nú hefur því heimili verið lokað þannig að sá kostnaður sem óneitanlega var af því að ferðast þangað fellur ekki til framvegis. En eins og Barnaverndarstofa orðar það eru langflestir foreldrar sáttir við að greiða þennan ferðakostnað.

Meginatriðið við þetta meðferðarstarf er náttúrlega það að börnin fái bata.