Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 13:48:52 (5659)

2002-03-06 13:48:52# 127. lþ. 89.2 fundur 413. mál: #A fjárhagsstaða sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Í janúarmánuði sl. birti svokölluð eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skýrslu um árlega athugun sína á fjárhagslegum málefnum sveitarfélaganna. Það vakti nokkra athygli að á listanum sem bréf fékk frá nefndinni fjölgaði verulega, og 31 af um 120 sveitarfélögum landsins var skrifað vegna þess að annað tveggja var framlegð sveitarsjóðs, samkvæmt þeim gögnum sem nefndin hafði, ekki fullnægjandi eða aðrar lykiltölur sem hafðar eru til hliðsjónar og skoðaðar af eftirlitsnefndinni gáfu tilefni til að haft væri samband við viðkomandi sveitarfélög. Að sjálfsögðu ber að taka skýrt fram að það þýðir ekki þar með að þau séu öll á heljarþröminni en þarna má segja að hafi blikkað gul ljós eða hringt viðvörunarbjöllum, og nefndin skrifaði þar af leiðandi eftirtöldum sveitarfélögum, í fyrra tilvikinu vegna framlegðarathugana: Hvalfjarðarstrandarhreppi, Eyja- og Miklaholtshreppi, Fellahreppi og Laugardalshreppi. Vegna þess að almennar lykiltölur gáfu tilefni til fengu eftirtalin sveitarfélög bréf frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga: Hafnarfjarðarkaupstaður, Bessastaðahreppur, Mosfellsbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Vatnsleysustrandarhreppur, Leirár- og Melahreppur, Borgarfjarðarsveit, Borgarbyggð, Snæfellsbær, Saurbæjarhreppur, Kirkjubólshreppur, sveitarfélagið Skagafjörður, Torfalækjarhreppur, Blönduósbær, Höfðahreppur, Húsavíkurkaupstaður, Ólafsfjarðarbær, Aðaldælahreppur, Raufarhafnarhreppur, Þórshafnarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Vestmannaeyjabær, Rangárvallahreppur, Villingaholtshreppur og Biskupstungnahreppur.

Hér á í hlut, herra forseti, eins og heyra má mjög fjölbreytt flóra sveitarfélaga. Í hópnum eru bæði nokkrir af stærstu kaupstöðum landsins, þó ekki Reykjavík sem sjálfstæðismenn hafa miklar áhyggjur af eins og kunnugt er, og líka mörg nýlega sameinuð sveitarfélög sem greinilega glíma við mikla fjárhagserfiðleika. Allar helstu mælingar á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, svo sem eins og útgjöld til rekstrar sem hlutfall af skatttekjum eða heildarskuldir sem miða við peningalegar eignir, hringja líka viðvörunarbjöllum, herra forseti. Fjárhagsstaða sveitarfélaganna fer versnandi. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. félmrh. eftirtalinna spurninga:

1. Hverjar telur ráðherra vera helstu skýringar á versnandi fjárhagsstöðu fjölmargra sveitarfélaga, samanber mat eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga?

2. Hyggst ríkisstjórnin grípa til sérstakra aðgerða í ljósi nýjustu upplýsinga um afkomu sveitarfélaganna?

Spurt er að gefnu tilefni, herra forseti, vegna þess að ákaflega lítið virðist hafa gerst í þessum efnum undanfarin ár.