Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 13:52:04 (5660)

2002-03-06 13:52:04# 127. lþ. 89.2 fundur 413. mál: #A fjárhagsstaða sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun varð rekstrarhalli sveitarfélaganna árin 1998--2000 þannig, á áætluðu verðlagi ársins 2002, að 1998 var hann 5,2 milljarðar, 1999 3,8 milljarðar og 2000 3,6 milljarðar. Þjóðhagsstofnun áætlar að hallinn árið 2001 verði aðeins 138 millj. kr. og 275 millj. á yfirstandandi ári. Þarna er sem sagt gert ráð fyrir því að afkoma sveitarfélaganna fari mjög batnandi.

Það má ekki álykta út frá þeim bréfum sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi að þarna sé um mjög vonda stöðu að ræða. Það er hægt að nefna ýmsa þætti sem hafa áhrif til hins verra á fjárhagsstöðu margra sveitarfélaganna. Ég hygg þó að þrír þættir vegi þar þyngst, þ.e. búsetubreytingar, launahækkanir og aukinn vaxtakostnaður.

Varðandi búsetubreytingarnar vil ég benda á þrennt:

Í fyrsta lagi áhrifin fyrir þau sveitarfélög þar sem fólki fækkar sem eru einkum þau að tekjur þessara sveitarfélaga dragast saman án þess að rekstrarútgjöldin lækki sem því nemur. Færri eru hins vegar til þess að bera uppi það þjónustustig og þau útgjöld sem mörkuð hafa verið.

Í öðru lagi skapast aukinn rekstrarkostnaður hjá sveitarfélögum þar sem fólki fjölgar. Eftirspurn eftir félagslegri þjónustu eykst og aukinn kostnaður er við fræðslumál o.s.frv. Á móti hækka tekjur þeirra og möguleikar eru á stærðarhagkvæmni í þessum sveitarfélögum.

Í þriðja lagi aukast fjárfestingar í kjölfar snöggra breytinga á byggðamynstri og það sést vel í þeirri aukningu sem er í fjárfestingum á höfuðborgarsvæðinu. Eins hafa lagaáform um einsetningu grunnskólans áhrif til ársins 2002 ásamt auknum fjárfestingum vegna umhverfismála.

Launahækkanir í kjölfar kjarasamninga hafa leitt til meiri hækkunar á útgjöldum sveitarfélaganna heldur en tekjuauki þeirra vegna aukinna útsvarstekna í kjölfarið hefur numið. Mikill hallarekstur sveitarfélaganna á árunum 1997--2000 leiddi til aukinnar skuldasöfnunar sem hefur síðan haft í för með sér stóraukna vaxtabyrði. Rétt er að benda á að þessi fjögur ár voru framkvæmdir sveitarfélaganna mjög miklar og áttu þátt í hallarekstri þeirra.

Fyrirspyrjandi spurði hvort ríkisstjórnin hygðist grípa til sérstakra aðgerða í ljósi nýjustu upplýsinga um afkomu sveitarfélaganna. Varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bæta afkomu sveitarfélaganna er rétt að benda á að á árinu 2000 skilaði nefnd, sem ég skipaði til að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna, áliti og tillögum. Breytingar sem gerðar voru á tekjustofnalögunum í kjölfarið áttu að skila sveitarfélögunum tekjuauka á árinu 2001 upp á 3.200 millj. og árið 2002 3.750 millj. Þetta kemur glögglega fram í áætlunum Þjóðhagsstofnunar um stórbætta afkomu sveitarfélaganna á þessum árum.

Kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða hefur gjörbreytt fjárhagsstöðu sveitarfélaga á Vestfjörðum. Eins og ég nefndi áður hafa miklar búsetubreytingar haft mjög neikvæð áhrif á fjárhag margra sveitarfélaga og fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnar í byggðamálum geta því haft jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaganna. Það er ekki ástæða til að gera mikið úr almennum vanda sveitarfélaganna. Nokkur sveitarfélög eru í vanda. Af þeim sveitarfélögum sem fengu bréf í fyrra eru 10 þeirra núna komin fyrir vind.

Ástæður þess að sveitarfélögin eiga við fjárhagserfiðleika að etja eru náttúrlega mismunandi eftir staðháttum. Ef ég fer í það sem ég er kunnugastur er t.d. skýringin á erfiðri fjárhagsstöðu Blönduóss sú að þar er búið að koma fráveitumálum í gott horf, eitt fárra sveitarfélaga á landinu. Skagaströnd þurfti að verja hagsmuni útgerðarfélagsins og kaupa hlutabréf og svona mætti lengi telja.