Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 13:58:15 (5662)

2002-03-06 13:58:15# 127. lþ. 89.2 fundur 413. mál: #A fjárhagsstaða sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka þetta upp. Þetta er vissulega þörf umræða og þyrfti lengri tíma en þessar örfáu mínútur sem gefast í fyrirspurnatíma enda hefur staða sveitarfélaganna versnað til muna. Þau hafa verið að bregðast við þeirri fólksfækkun sem blasir við á mjög mörgum svæðum og síðan hafa verið lagðar á þau mjög ríkar lagalegar og skuldbindandi skyldur sem hafa fylgt EES-samningnum.

Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort vitað sé hver staðan er gagnvart húsaleigubótunum, greiðslum inn í jöfnunarsjóðinn, hvort þær standi undir skuldbindingum vegna húsaleigubótanna og ef ekki, hvort þá eigi að bregðast við með einhverjum hætti.