Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:00:34 (5664)

2002-03-06 14:00:34# 127. lþ. 89.2 fundur 413. mál: #A fjárhagsstaða sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:00]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að heyra þær tölur sem hæstv. ráðherra flutti um rekstrarhalla sveitarfélaga sem ég skildi svo að væri halli að meðtöldum fjárfestingum vegna þess að halli minnkar verulega þegar líður á kjörtímabil sveitarstjórnanna. Í fyrra og á þessu ári sem er kosningaár er gert ráð fyrir því að hallinn verði aðeins brot af því sem hann var á fyrri hluta kjörtímabils sveitarstjórnanna. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þessu því að það bendir líka til ábyrgrar fjármálastjórnar sveitarfélaga auk þess að upplýsa að afkoma sveitarfélaganna fer greinilega batnandi og því er ekki ástæða til að ætla að afkoma þeirra sé almennt slæm heldur afmarkist fremur við ákveðin svæði landsins. Þar vildi ég nefna eitt mál sem ég tel ákaflega þýðingarmikið að koma í höfn, þ.e. að gera sveitarfélögum kleift að færa niður verð og selja á almennum markaði félagslegar íbúðir sem ekki eru lengur notendur fyrir.