Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:04:08 (5666)

2002-03-06 14:04:08# 127. lþ. 89.2 fundur 413. mál: #A fjárhagsstaða sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ef litið er á meðaltal sveitarfélaganna þá fer hagurinn batnandi, verulega mikið batnandi. Hitt er svo annað mál og ber að hafa það í huga, að þarna er um meðaltal að ræða. Sumir eru að græða og sumir að tapa. Unnið er að tillögugerð. Nefnd sem fjallar um félagslegt húsnæði sveitarfélaganna er að ljúka störfum. Ég vonast eftir því að fá í hendur alveg á næstu dögum endanlegar tillögur nefndarinnar þannig að við getum tekið á því verkefni. En það er orðið mjög brýnt að gera það. Það er alveg réttmæt ábending sem hér hefur komið fram að okkur ber að reyna að klára það mál.

Varðandi sveitarfélögin á Vestfjörðum þá er á biðreikningi lítill hluti af söluverði orkubúsins sem þau gætu notað til ráðstöfunar eða haft handbæran, ef til kæmi, til að leysa þessi félagslegu húsnæðismál. Það var ekkert aðalatriði eða meginþáttur í því að þau þurftu að selja orkubúið.

Varðandi húsaleigubæturnar þá er ekki komin niðurstaða í það mál sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði um. En sú niðurstaða þarf að liggja fyrir samkvæmt samkomulagi við sveitarfélögin fyrir 1. maí.

Það er ekkert leyndarmál að Reykjavík er vel sett fjárhagslega. Hún er með best settu sveitarfélögum landsins fjárhagslega. (Gripið fram í.) Reyndar eru fleiri sveitarfélög vel sett. En af stóru sveitarfélögunum er best ástand í Reykjavík.

Sem betur fer er mjög ábyrg fjármálastjórn í mörgum sveitarfélögum og ég held að hún hafi farið batnandi á undanförnum árum.