Húsaleigubætur foreldra með sameiginlegt forræði barna

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:06:39 (5667)

2002-03-06 14:06:39# 127. lþ. 89.3 fundur 534. mál: #A húsaleigubætur foreldra með sameiginlegt forræði barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Færst hefur í vöxt að foreldrar sem ekki búa bæði með barni eða börnum sínum eru með sameiginlega forsjá eða sameiginlegt forræði. Oft er fjárhagsstaða foreldra slæm eftir skilnað eða sambúðarslit og annað eða jafnvel bæði þurfa að fara á húsaleigumarkað.

Í lögum um húsaleigubætur segir að aðeins það foreldri sem barn eða börn hafa lögheimili hjá fái greiddar viðbótargreiðslur eða hærri bætur vegna barnsins eða barnanna, sbr. 5. gr. laga um húsaleigubætur. Hitt foreldrið sem er einnig með forsjána fær ekki þessa viðbót þó svo barnið eða börnin séu jafnmikið hjá því foreldri. En barn getur eins og við vitum aðeins verið með lögheimili á einum stað eins og aðrir samkvæmt lögum.

Ég þekki dæmi þess að foreldrar --- oft eru það feður --- geta ekki sinnt skyldum sínum og foreldrahlutverki almennilega vegna bágrar fjárhagsstöðu, skulda og lágra tekna og geta m.a. ekki leigt sér íbúð vegna þessarar stöðu. En ef tekið væri tillit til barna við greiðslu á húsaleigubótum væri staðan önnur.

Félagsmálayfirvöld sem ég hef rætt þetta mál við hafa tekið undir að þetta ástand sé óviðunandi og að breyta þurfi lögum um húsaleigubætur til að koma til móts við þessa foreldra þannig að foreldrar sem eru með sameiginlega forsjá standi jafnt að vígi hvað þetta varðar. Ég veit að því hefur verið komið á framfæri við félmrh. eða félmrn. að það þyrfti að gera þessar breytingar. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Eru áform um að breyta lögum í þá veru að foreldrar, sem hafa sameiginlegt forræði yfir barni eða börnum sínum sem ekki eru með lögheimili hjá þeim, geti fengið hærri húsaleigubætur í samræmi við fjölda barna þeirra?