Húsaleigubætur foreldra með sameiginlegt forræði barna

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:12:57 (5669)

2002-03-06 14:12:57# 127. lþ. 89.3 fundur 534. mál: #A húsaleigubætur foreldra með sameiginlegt forræði barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég vissi ekki um þetta erindi Félags ábyrgra feðra vegna þessa máls. Aftur á móti hafa foreldrar komið að máli við mig vegna þessa eins og kom fram í máli mínu áðan. Ég heyri að hæstv. ráðherra hyggst ekki breyta lögum um húsaleigubætur til að koma til móts við þá foreldra þar sem börn eiga ekki lögheimili, en þurfa samt að sinna þeim.

Komið hefur í ljós að foreldrar hafa ekki getað sinnt foreldrahlutverki sínu vegna bágrar fjárhagsstöðu og vegna þess að þeir fá ekki þessar viðbótarhúsaleigubætur. Þó svo þeir fái ekki barnabætur og þetta samræmist kannski ekki öðrum lögum þá hefði ég talið að hægt væri að koma þarna til móts við þessa foreldra þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu. Ég vonaði að ég mundi heyra það frá hæstv. ráðherra að hann hygðist breyta 5. gr. laga um húsaleigubætur þannig að hægt væri að greiða þessum foreldrum sem sannanlega eru með börnin sín jafnt á við það foreldri sem er með hærri húsaleigubæturnar, eða að hægt væri að greiða þeim meira. Ég efast um að um marga sé að ræða, að mikil útgjöld mundu skapast af þessu. En þetta mundi auðvelda samskipti barna og þess foreldris sem er í þessari stöðu og það er mjög mikilvægt fyrir þau börn sem búa við þær aðstæður að foreldrar þeirra búa ekki saman. Ég mun því hugleiða það að leggja fram frv. um þessar breytingar þannig að hægt verði að koma til móts við þessa foreldra því að ég tel það skyldu velferðarþjónustunnar og velferðarkerfisins að styðja við foreldra þannig að þeir geti sinnt foreldrahlutverki sínu við þessar aðstæður.