NMT-farsímakerfið

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:17:16 (5671)

2002-03-06 14:17:16# 127. lþ. 89.4 fundur 407. mál: #A NMT-farsímakerfið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég ber fram svohljóðandi spurningar til hæstv. samgrh.:

1. Hvernig verður staðið að uppbyggingu NMT-farsímakerfisins um landið á næstu árum?

2. Hafa verið sett fram markmið um útbreiðslu þess í framtíðinni?

Ástæðan fyrir því að ég spyr þessara spurninga er sú að menn reiða sig mjög mikið á þetta kerfi þegar farið er um landið og í öðru lagi er þetta kerfi sem sjómenn nota. Þó að GSM-símakerfið hafi vaxið að útbreiðslu á undanförnum árum, þá breytir það ekki því að víða í landinu eru gloppur og þá er það NMT-kerfið sem gildir fyrir utan það að legið hefur fyrir að GSM-kerfið verður ekki byggt upp þannig að það dekki landið í heild sinni. Þvert á móti er fyrst og fremst gert ráð fyrir því að þetta sé kerfi sem sé til staðar á þéttbýlisstöðum, sumarbústaðasvæðum þar sem fólk leggur gjarnan leið sína um, að einhverju leyti kannski við þjóðveginn þó að það sé fjarri því að sú uppbygging hafi átt sér stað nema þá að litlu leyti. Við þær aðstæður er það auðvitað NMT-kerfið sem gildir.

Á ferð um landið tökum við eftir því að NMT-kerfið er það eina sem dugir. Sums staðar eru hins vegar gloppur í kerfinu og á ýmsum stöðum eru menn nánast fjarskiptalausir. Þess vegna er áríðandi að átta sig á því hvernig hægt sé að bæta úr þessu.

Þetta er í grundvallaratriðum sú hugsun sem bjó að baki þessum tveimur spurningum mínum um hvernig staðið verður að slíkri uppbyggingu, hvort menn hafi hugsað sér að halda áfram þessu kerfi, ef ekki hvort eitthvað annað komi í staðinn. Og í öðru lagi hvernig verði hægt að tryggja það að þetta farsímakerfi nái yfir það landsvæði sem menn eru almennt að ferðast um, t.d. í fjarðarbotnum sums staðar á Vestfjörðum, bæði í Austur-Barðastrandarsýslu og reyndar stundum í Ísafjarðardjúpi, þar er NMT-kerfið dálítið veikt. Þess vegna er mjög mikilvægt að bæta úr þar sem svo háttar til.