NMT-farsímakerfið

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:25:22 (5673)

2002-03-06 14:25:22# 127. lþ. 89.4 fundur 407. mál: #A NMT-farsímakerfið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir afar greinargóð svör sem eru fyllilega svör við þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Ég held að það sem skiptir mestu máli úr svörum hæstv. ráðherra séu þær upplýsingar að ekki sé þess að vænta að breytingar verði hér á landi á allra næstu árum. Fyrir liggur að ætlunin er að reka þetta kerfi núna um fyrirsjáanlega framtíð og greinilegt að ekki eru uppi áform um annað hjá Landssíma Íslands og ljóst að þó svo væri, þá eru ýmsir möguleikar á því að framlengja þann tíma sem rekstrinum yrði haldið áfram.

Það kom hins vegar greinilega fram hjá hæstv. ráðherra að þetta mál er í ákveðinni deiglu vegna þess að tæknibreytingar hafa gert það að verkum að eftirspurnin eftir þessari þjónustu hefur minnkað og grundvöllurinn þar af leiðandi versnað fyrir þessa tilteknu þjónustu. Ég held hins vegar að það sé alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra segir að þetta kerfi er mjög mikilvægt og ég held að fáum sé það jafn vel ljóst og þingmönnum af landsbyggðinni sem aka um vegina og þurfa oft að grípa til þessa símakerfis og vita hversu mikilvægt tæki þetta er.

Ég vil líka í þessu sambandi sérstaklega árétta og leggja mjög mikla áherslu á að menn mega auðvitað ekki gleyma því í þessu sambandi að NMT-kerfið er grundvallarfjarskiptakerfi fyrir báta og skip í kringum landið og þó að menn séu ánægðir með GSM-símasambandið á landi, þá liggur fyrir að ekki er slíku til að dreifa úti á sjó. Þess vegna verða menn að skoða það mál mjög vel í því ljósi, mikilvægi þess fyrir okkur Íslendinga. Við erum auðvitað háðari þessu kerfi en flestar aðrar þjóðir vegna legu landsins, vegna dreifbýlisins og vegna stöðu sjávarútvegsins. Ég fagna þess vegna sérstaklega yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að ofan í þessi mál verði rækilega farið með það fyrir augum að tryggja til frambúðar þá þjónustu sem NMT-kerfið hefur veitt okkur.