Lagning Sundabrautar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:27:52 (5674)

2002-03-06 14:27:52# 127. lþ. 89.5 fundur 435. mál: #A lagning Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ein allra stærsta ákvörðun í skipulagsmálum Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins á næstu árum er lagning Sundabrautar en hún á að tengja núverandi byggð vestan Elliðaáa við framtíðarbyggð í Geldinganesi og við Vesturlandsveg. Þar með þarf hún að liggja yfir Kleppsvík og er þar vegna áætlaðs umferðarálags gert ráð fyrir fjórum akreinum til að byrja með en gæti síðar þurft að breikka í sex akreinar.

Við gerð svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið og aðalskipulags Reykjavíkur 2001--2014 á síðasta ári breyttust skipulagsforsendur á leið Sundabrautar verulega þar sem nú er gert ráð fyrir blandaðri byggð með um 3.200 íbúum á svæði Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Þar hefur verið hafnar- og iðnaðarsvæði.

Einnig hafa áætlanir um uppbyggingu í Álfsnesi frestast og eru nú áætlaðar í lok skipulagstímabilsins. Í þeirri vinnu sem fram hefur farið hefur einkum verið litið til fimm valkosta en þeir eru hábrú yfir víkina, botngöng, tvær útfærslur af lágbrú og loks jarðgöng. Stýrihópur um verkið hefur einsett sér að leggja fram eina útfærslu á lagningu brautarinnar yfir Kleppsvík sem aðaltillögu í matsskýrslu og gæti þar orðið um að ræða annaðhvort hábrú eða lágbrú.

Í tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi er gert ráð fyrir að reist verði hábrú yfir Kleppsvík en stofnkostnaður er þar mun hærri en ef tillaga yrði gerð um lágbrú sem Vegagerðin hefur einkum horft til. Hábrú og lágbrú eru verkfræðileg heiti, okkur flestum ekki svo töm en lýsa því hvernig brýr eru hannaðar og hvort brýr hefja sig á loft eða liggja í plani. Af því ræðst að sjálfsögðu hversu sýnilegar þær verða í umhverfi sínu.

Miklu varðar að vel takist til þegar ákvörðun er tekin í svo mikilvægu skipulagsmáli í höfuðborginni og að skipulagsyfirvöld borgarinnar eigi sem mesta samleið með samgönguyfirvöldum. Því vil ég spyrja hæstv. samgrh. eftirfarandi spurninga:

1. Hvað líður ákvörðun um legu og lagningu Sundabrautar sem á að tengja núverandi byggð vestan Elliðaáa við framtíðarbyggð í Geldinganesi og síðan tengjast Vesturlandsvegi?

2. Er samkomulag í sjónmáli milli samgönguyfirvalda og borgaryfirvalda um þessar framkvæmdir?

3. Hvað er áætlað að framkvæmdirnar kosti miðað við þær tillögur Vegagerðarinnar sem fyrir liggja?