Lagning Sundabrautar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:36:17 (5676)

2002-03-06 14:36:17# 127. lþ. 89.5 fundur 435. mál: #A lagning Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Bæði meiri og minni hluti borgarstjórnar í Reykjavík hefur verið sammála um að fara skuli leið I yfir eða undir Sundabrautina að Kleppi eða yfir Kleppsvíkina, þ.e. móts við Klepp. Ég heyri að hæstv. ráðherra er á þeirri skoðun að fara eigi leið III en eins og komið hefur fram í þeim skýrslum sem hafa verið gerðar um þessi mál bæði ógnar sú leið umferðaröryggi, þ.e. að allri umferð sé beint úr Grafarvogi inn Miklubrautina, auk þess sem það mun hafa áhrif á Elliðaárnar sem laxveiðiá og þá náttúruperlu sem hún er.

Það er mjög mikilvægt að fá þessa tengingu yfir Kleppsvíkina sem fyrst og það dugar að fá hana frá Hallsvegi eins og umferðarspár eru í dag. Þó að þetta sé dýrari leið, leið I, erum við að fjárfesta til framtíðar og það er mikilvægt að við horfum til þeirra þátta. Verðmunur milli leiðar I og leiðar III er ekki það stór. Ég legg mikla áherslu á, herra forseti, að menn líti til þess og ég veit að bæði borgaryfirvöld í Reykjavík og sömuleiðis minni hlutinn eru mjög fylgjandi því að leið I verði farin.