Lagning Sundabrautar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:37:35 (5677)

2002-03-06 14:37:35# 127. lþ. 89.5 fundur 435. mál: #A lagning Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. hans vönduðu svör. Ábendingar sem komu frá hv. síðasta ræðumanni eru alveg réttar, borgaryfirvöld hafa frekar horft á leið I án þess þó að komin sé niðurstaða í því máli. Rétt er að halda því til haga.

Eins og komið hefur fram í máli mínu er um eina stærstu ákvörðun í skipulags- og samgöngumálum höfuðborgarinnar að ræða. Sundabraut á að liggja yfir Kleppsvík, um Gufunes og yfir Eiðsvík á Geldinganes, þaðan um Leiruvog og Álfsnes og að lokum yfir í Kollafjörð. Í fróðlegri grein eftir Árna Hjartarson jarðfræðing fyrir á að giska tveimur árum kemur fram að óskaleið jarðfræðinga séu 4 km jarðgöng frá Kirkjusandi og yfir í Gufunes en hagkvæmni þeirra fari þó eftir gerð jarðlaga, og svara þurfi mörgum jarðfræðilegum spurningum áður en kostnaðaráætlun er gerð.

Í núverandi kostnaðaráætlun telja menn að hábrú muni kosta rúma 16 milljarða kr., þ.e. heildarkostnaður, og lágbrú með landmótun rúma 13 milljarða. Stofnkostnaður getur því legið á bilinu 13--20 milljarðar þegar á allt er litið.

Þegar teknar eru ákvarðanir af þessari stærðargráðu blasir ekki við að ávallt sé æskilegt að velja ódýrasta kostinn þótt það hljóti auðvitað að hafa áhrif að verulegu leyti. Taka þarf tillit til afar margra þátta þegar þessi ákvörðun er tekin og í þessu tilviki gætu ódýrari kostirnir verið fýsilegir, og lágar brýr og landmótun á þessu svæði ekki orðið eins yfirþyrmandi í umhverfinu eins og hábrú svo dæmi sé tekið. Jarðgöng og botngöng eru verulega erfiðari í framkvæmd og jafnframt mun dýrari kostir. En höfuðborgin á að sjálfsögðu skilið að besti kosturinn sé valinn hver sem kostnaðurinn er. Þetta er stórmál sem heldur lítið hefur farið fyrir í umræðunni og það er nauðsynlegt að þingmönnum sé gert kleift að kynna sér málið, svo og að taka afstöðu til þess enda eru miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir Reykvíkinga og þorra annarra landsmanna.