Lagning Sundabrautar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:39:53 (5678)

2002-03-06 14:39:53# 127. lþ. 89.5 fundur 435. mál: #A lagning Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þau viðbrögð sem urðu við þessu svari mínu við fyrirspurn hv. þm. en vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, 15. þm. Reykv., vil ég bara undirstrika að það er rangt mat hjá henni að ég hafi komist að niðurstöðu um val á leið. Ég tel að það sé ekki tímabært. Ég fór mjög vandlega og rækilega yfir þá kosti sem þarna er um að ræða og að sjálfsögðu þarf að taka ákvörðun á grundvelli umhverfismatsins og þeirrar skipulags- og tæknivinnu sem er nú unnið að og er algerlega nauðsynlegt. Eins og fram kom hjá hv. þm. Katrínu Fjeldsted er stórmál fyrir höfuðborgarsvæðið hvernig til tekst með að tengja Sundabraut, hvernig tekst til að fara þarna um umhverfið því að þarna er ein af náttúruperlunum á svæðinu, Elliðaárnar, og að sjálfsögðu þarf að taka tillit til þess þannig að ég hef ekki bundið mig, hvorki í eitt né neitt.

Hins vegar er það auðvitað afar æskilegt fyrir blessaðan ríkissjóðinn okkar, og þar með Vegasjóð, að ekki sé valin dýrasta leiðin bara vegna þess að hún er dýrust og flottust. Við þurfum, Íslendingar, að meta leiðirnar kalt og ákveðið og horfa til þess að við þurfum að skipuleggja höfuðborgarsvæðið þannig að sem best sé til lengri tíma. Þess vegna er unnið að þessu á vegum Vegagerðarinnar. Vegagerðin hefur teflt fram þessum ódýrari kosti til skoðunar og það er ekkert óeðlilegt. Það er af mörgu að taka í uppbyggingu vegakerfisins um allt land, bæði hér í þéttbýlinu og annars staðar, þannig að það þarf að nýta fjármuni vel. En við skulum sjá hvað setur, hvað kemur út úr allri þessari undirbúnings- og rannsóknarvinnu og taka ákvarðanir þegar niðurstöður liggja fyrir.