Samstarf við Grænlendinga í flugmálum

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:53:18 (5683)

2002-03-06 14:53:18# 127. lþ. 89.6 fundur 448. mál: #A samstarf við Grænlendinga í flugmálum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær undirtektir sem svar mitt hefur fengið í þessari umræðu. Það er alveg ljóst sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar og við eigum að leita þeirra leiða sem við höfum til þess að bæta flugsamgöngur milli Grænlands og Íslands.

Við eigum í samstarfi við Grænlendinga undir sérstökum samningi sem SAMIG er nefndur. Á vegum SAMIG er staðið að ýmiss konar styrkveitingum til þess að efla þessi samskipti. Ég er alveg sammála því sem kom fram hjá hv. þm. að við þurfum að reyna að efla þau því það er í þágu beggja landanna.

Hv. þm. Kristján Pálsson spurði hvort um þetta hefði verið rætt við forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar. Þetta mál er ekki komið á þann rekspöl. Ég tel að eftir fundinn sem er í Grænlandi núna verði að stíga næstu skrefin í þessu máli. Við þurfum að fara yfir það þegar niðurstöður þess fundar liggja fyrir og það verður gert. Það er mikill vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að eiga gott samstarf við Grænlendinga og þegar og ef til þess þarf að koma verður að sjálfsögðu leitað eftir þeim fjármunum sem við teljum þurfa til þess að geta komið til móts við það verkefni sem okkur er til hagsbóta.