Skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 15:19:08 (5687)

2002-03-06 15:19:08# 127. lþ. 90.1 fundur 554. mál: #A skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. kom fram í sjónvarpsviðtali fyrir síðustu helgi. Hann var að skýra frá því hverjir þá hefðu vikið eða verið látnir víkja að sinni kröfu úr forstjórastólum, nefndum og ráðum. Þann daginn var það ekki úr einkavæðingarnefnd heldur yfirstjórn Landssímans hf. Hæstv. forsrh. sagði orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er bersýnilega eðlilegast, heilbrigðast og hreinlegast að ný stjórn komi að Símanum, nýr forstjóri komi síðan að Símanum, ráðinn af þeirri stjórn og menn hendi þessum syndum bak við sig eins og sagt var.``

Herra forseti. Hvar var það aftur sagt að maður gæti losnað við syndirnar með því að henda þeim á bak við sig? Er þetta ekki úr ágætum sálmi Hjálpræðishersins að með hjálp himnaföðurins geti maður hent syndum sínum á bak við sig. Og Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., hefur greinilega skilið sálminn á þann veg að geri maður þetta, þá sé maður laus allra mála.

Ekki er ég viss um að þetta sé alveg rétt útlegging á þessum gamla hjálpræðissöng. Reyndar held ég að það hafi átt að vera þannig að Drottinn tæki syndir okkar og veitti okkur aflausn. Og þegar allt kemur til alls, þá eru það ekki syndirnar sjálfar heldur meintir syndarar sem hæstv. forsrh. hendir nú aftur fyrir sig hverjum á fætur öðrum en greinilegt er að þannig vill hann þvo sig af öllum gjörðum þeirra.

Herra forseti. Svo einfalt er þetta mál ekki. Allt tengist þetta meira og minna einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Vissulega kemur mannlegur breyskleiki við sögu en ekkert af því sem gerst hefur þarf að koma á óvart og við þessu var varað aftur og ítrekað.

Staðreyndin er sú að með einkavæðingarstefnunni bæði hér á landi og í útlöndum þar sem mjög stórar stofnanir hafa verið teknar undan almannavaldi og þeim breytt úr þjónustustofnunum í markaðsfyrirtæki hafa fylgifiskarnir jafnan verið lakari réttindakjör fyrir almennt starfsfólk og síðan himinhá laun fyrir forstjóraveldið að ógleymdum ráðgjöfunum. Þessu tengt er svo peningahugsunin sem er fylgifiskur einkavæðingar og grundvöllur hennar, og breyskleikann, við skulum ekki gleyma því, átti einnig að virkja.

Nú er það ekki lengur almannaþjónusta sem á að vera í fyrirrúmi heldur ábatavon og arðsemi. Virkjum eignagleðina sagði Davíð Oddsson og gaf í skyn að hún væri sá drifkraftur sem leiddi til framfara. Skyldu menn muna þá umræðu sem fram fór í þingsölum þegar Póstur og sími var gerður að hlutafélagi? Þá sögðu talsmenn einkavæðingarinnar að hlutafélagaformið hentaði mun betur en þjónustufyrirkomulagið sem var við lýði og hvers vegna? Jú, m.a. vegna þess að í hlutafélagi væru menn frjálsari til að bregðast við með leifturhraða á markaði. Þetta hafa menn vissulega gert og allt hefur verið í botni, eignagleðin í algleymi.

Landssíminn sem áður hugsaði fyrst og fremst um að veita landsmönnum þjónustu á hagstæðu verði var nú gerður að fjárfestingarfyrirtæki með sæg af ráðgjöfum og sérfræðingum í peningatækni og svokallaðri nútímavæðingu.

Landssími Íslands var rekinn eins og hlutabréfasjóður segir Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar til margra ára. Samkvæmt frásögn fyrrv. forstjóra, Þórarins V. Þórarinssonar, fjárfesti Landssíminn fyrir 11 milljarða og því var ekki mikið að tapa á einu ævintýrinu, u.þ.b. 400 millj. kr. fyrir um 11 milljarða kr. Auðvitað hljótum við eigendur Landssímans að furða okkur á þessu ábyrgðarlausa tali og spyrja enn fremur: Hvernig standa þessar milljarðafjárfestingar í dag? Er nema von að spurt sé þegar forsrh. þjóðarinnar upplýsir að Landssíminn hafi tekið 5 milljarða kr. erlent lán til að fjárfesta fyrir og forstjórinn fyrrverandi, Þórarinn V. Þórarinsson, kemur með þá skýringu að fjárfestingaráætlunin hafi m.a. ekki komið jafn vel út og ráð var fyrir gert vegna mikils gengisfalls krónunnar frá því að lánin voru tekin.

Einnig þarf að gera grein fyrir því hvaða ástæða lá að baki sölu höfuðstöðva Landssímans og hvert Síminn ætlaði að flytja sig, en nú er hann á götunni sem kunnugt er og borgar nýjum eigendum sem nemur 1% af andvirði söluverðsins, 8,2 millj. kr. í leigu á hverjum mánuði. Einnig er upplýst að þegar höfuðstöðvarnar verða fluttar, hvenær sem það nú verður, þá verði a.m.k. um 15 ára skeið að leigja gamla húsnæðið að hluta undir miðbæjarstöð Símans. Á hvaða taxta var ráðgjafinn sem ráðlagði þetta? Var það e.t.v. stjórnarformaður fyrirtækisins og var þetta borið undir hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstjórn? Með öðrum orðum: Höfuðstöðvar Landssímans voru seldar á 820 millj. kr., síðan endurleigðar í a.m.k. tvö ár fyrir yfir 100 millj. á ári og síðan er fyrirséð að í a.m.k. 15 ár til viðbótar verður að leigja húsnæði af hinum nýju eigendum fyrir samtals um 270 millj. kr. Ég ætla ekki að fara nánar út í þessi makalausu viðskipti en ég vil leggja áherslu á að upplýsa verður hverjir keyptu höfuðstöðvar Landssímans þar sem opinberlega hefur verið skýrt frá því að byggingarverktakar hafi keypt þær en ótilgreindur fjöldi fjárfesta sé þar að baki. Hverjir eru þeir?

Þá þarf að upplýsa um fjárfestingu Landssímans í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur og væntanlegum byggingarframkvæmdum en fram hefur komið samkvæmt viðtali við hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, að fyrirsjáanlega verði tap á þeirri fjárfestingu fyrir Landssímann en samstarfsaðilinn, Íslenskir aðalverktakar, munu hagnast. Er það ekki rétt munað hjá mér að í stjórn Íslenskra aðalverktaka sitji Jón Sveinsson, fulltrúi Framsfl. í einkavæðingarnefnd? Voru það ekki Aðalverktakar sem reistu einkavætt öldrunarheimili án þess að einu sinni væri eðlilega staðið að útboði? Og er þá komið að samlíkingunni við hina drukknu sjómenn.

Í frétt DV frá 18. febrúar segir Anand Kumar, stjórnarformaður í bandaríska fyrirtækinu IP Bell, að stjórnendur þess fyrirtækis hafi hent 18 millj. dollara í tómt rugl á aðeins sex mánuðum. Áætlanir hafi verið í molum og enginn hafi vitað í hvað peningarnir fóru. Stjórnendurnir hafi verið eins og drukknir sjómenn. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir sjómönnum, einnig drukknum sjómönnum. En þetta var samlíking þessa stjórnarmanns í fyrirtækinu en í því fjárfesti Landssími Íslands fyrir 4 millj. dollara og nú er upplýst að forstjóri Landssíma Íslands, sem ásamt öðrum átti stjórnarsetu í fyrirtækinu, hafi ekki sakir anna haft tíma til að fylgjast með þróun mála vestra. Væntanlega gildir hið sama um ráðgjafana íslensku sem að eigin sögn unnu dag og nótt og um helgar. Þetta, herra forseti, er einkavæðingin á Íslandi.

Landssími Íslands skilaði frá 1988 og fram undir lok 10. áratugarins á rúmum tíu árum um 20 milljörðum kr. í ríkissjóð Íslands. Hann skilaði líka góðri þjónustu og var í stöðugri framfarasókn. Þessi gamalgróna þjónustustofnun er vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, ekki vegna breyskleika einstakra manna heldur vegna stefnu ríkisstjórnarinnar orðinn leiksoppur á fjármálamarkaði. Það er staðreynd að þegar gullgerðarvélar á borð við símafyrirtæki hafa verið markaðsvæddar, þá fara fjármunir sem áður runnu til almennings í aðra vasa. Þess eru ófá dæmin að einkavæddar stofnanir hafna í höndum manna sem gera sér aðstöðu sína að féþúfu á kostnað almennings. Yfirstjórn Landssímans reynist nú dýrari en laun heillar ríkisstjórnar. En þær tölur blikna þó þegar dæmið er gert upp í stærra samhengi því þessi ríkisstjórn og sú ábyrgðarlausa stefna sem hún rekur í þessum málum í tengslum við markaðsvæðingu og einkavæðingu og sú spilling sem þrífst í skjóli hennar er orðin þjóðinni dýr. Sú ríkisstjórn sem nú fer með stjórn landsins er orðin þessari þjóð allt of dýr.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur þegar óskað eftir rannsókn á einkavæðingunni sérstaklega með tilliti til Landssímans og munum við einnig styðja þá tillögu sem hér er til umfjöllunar um sérstaka rannsóknarnefnd. Því miður skortir okkur hefð til sjálfstæðra rannsókna af hálfu Alþingis en þessi tillaga er tilraun til að treysta þá hefð og það styðjum við heils hugar.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur að sjálfsögðu jafnframt upp úr því að Ríkisendurskoðun, sem starfar á ábyrgð Alþingis, ljúki rannsókn sem þingflokkur okkar fór fram á vegna einkavæðingarnefndar með sérstakri hliðsjón af Landssíma Íslands. Hitt er svo alveg ljóst og þar þarf enga rannsókn til að finna hvar pólitísk ábyrgð liggur, hún liggur í þessu sérstaka tilviki hjá hæstv. samgrh. og hæstv. forsrh. Þeir bera ábyrgð á málefnum Landssímans og síðan er að sjálfsögðu að því að hyggja að einkavæðingarnefnd starfar á vegum ríkisstjórnarinnar. Hún er starfsnefnd fjögurra ráðherra, hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, hæstv. fjmrh. Geirs H. Haardes, hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar og hæstv. iðnrh. Valgerðar Sverrisdóttur. Þessir ráðherrar Sjálfstfl. og Framsfl. og ríkisstjórnin öll bera pólitíska ábyrgð á þeirri stefnu sem hún hefur þröngvað fram og birtist okkur nú með þessum hætti. Þessum syndum mun þjóðin ekki gleyma. Því miður þarf hún að súpa af þeim seyðið um sinn, en þá er líka gott til þess að vita að nú styttist í kosningar á Íslandi.