Skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 15:45:07 (5690)

2002-03-06 15:45:07# 127. lþ. 90.1 fundur 554. mál: #A skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög fróðlegt að hlýða á ræður hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem þeir hafa fjallað um 39. gr. stjórnarskrárinnar. Þeir hafa fullyrt að þetta úrræði sé með öllu tilgangslaust, með öðrum orðum að stjórnarskrárgjafinn hafi í upphafi augljóslega haft rangt fyrir sér og þessi leið sem stjórnarskrárgjafinn bendi á sé tilgangslaus og aðeins til þess fallin að stjórnarandstæðingar geti verið með upphlaup á þingi og þegar menn bendi á að rétt sé að fara þessa leið sé um að ræða pólitískan loddaraskap, sýndarmennsku og ekkert annað. Þetta er mat hæstv. ráðherra á 39. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Þetta er sú virðing sem þeir bera fyrir þeirri leið sem stjórnarskráin býður upp á.

Stjórnarskráin býður upp á að þegar um mikilvæg mál er að ræða sem varða almenning sé hægt að skipa nefnd alþingismanna til þess að fjalla um þau mál. Ég held að það sé miklu eðlilegra að menn spyrji í þessari umræðu: Hvers vegna förum við ekki þá leið að þingið gangi í að veita framkvæmdarvaldinu það aðhald sem það á að veita framkvæmdarvaldinu? Hver eru rökin sem hafa komið fram? Jú, hæstv. utanrrh. og annar þingmaður Framsfl. áttu á sínum tíma þátt í tilurð Ríkisendurskoðunar. Það er það skjól sem ríkisstjórnin ætlar að hafa í þessu máli. Ríkisendurskoðun sem í þessu tilviki hefur endurskoðað reikninga Landssímans ár eftir ár. Ríkisendurskoðun sem gerði engar athugasemdir við að hæstv. samgrh. og núverandi stjórnarformaður Símans gerðu með sér samninga. Þeir gerðu engar athugasemdir við það sem þó hefur verið dregið fram í dagsljósið. Er einhver hér inni sem trúir því í hjarta sínu að það sem fjölmiðlar hafi dregið fram sé tæmandi talning á því sem þarna hefur átt sér stað? Er einhver hér inni sem trúir því í alvöru?

Nei, virðulegi forseti. Vitaskuld hefðum við átt að nota tækifærið nú og setja á stofn þessa nefnd til þess að Alþingi rísi nú upp og sinni því hlutverki sem það hefur, að veita framkvæmdarvaldinu nægt aðhald.

Hvers vegna erum við að leggja þessa tillögu fram, virðulegi forseti? Jú, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hefur komið fram að stjórnun fyrirtækisins hefur ekki verið sem skyldi, ráðning forstjóra og brottför hans, óljósar ástæður, trúnaðarbrestur, yfirlýsingar ráðherra o.s.frv. Hvernig hefur fyrirtækið staðið að einkavæðingunni? Hvað hefur fyrirtækið lagt margar milljónir í einkavæðinguna sjálfa sem ekki hefur komið fram? Persónulegar fjárfestingar fyrrverandi forstjóra sem hæstv. forsrh., sem ekki treystir sér til þess að vera við þessa umræðu, hefur talað um að hafi þurft skoðunar við. Ekkert hefur komið fram um þær. Kannski að Ríkisendurskoðun finni eitthvað í því máli sem þeir ekki hafa fundið áður. Ákvarðanir um fjárfestingar, yfirlýsingar fyrrverandi formanns einkavæðingarnefndar um að stjórnin hafi verið allt að því meðvitundarlaus allan tímann. Hringir þetta engum bjöllum? Er þetta bara pólitískur loddaraskapur Samfylkingarinnar? Hvers konar yfirlýsingar eru þetta? Afskipti ráðherra af stjórninni eru vafasöm o.s.frv. Það er sama hvar borið er niður. Allt ber þetta að sama brunni.

Virðulegi forseti. Það vegur ekki síður þungt að dregið hefur verið fram í dagsljósið með skýrum hætti að hæstv. samgrh. braut gegn ákvæðum hlutafélagalaga. Hann braut gegn ákvæðum 72. gr., 74.--76., 80. og 134. gr. sem allar draga það með skýrum hætti fram, hver og ein einasta, að stjórnin sem á að taka þær ákvarðanir sem hæstv. samgrh. gerði. Hann hafði ekkert umboð til þess. Þetta þýðir, virðulegi forseti, að það er brotið gegn b-lið 9. gr. laga um ráðherraábyrgð. Svo segja menn hér fullum fetum að Samfylkingin sé bara í einhverjum loddaraskap og sýndarmennsku o.s.frv. Að menn skuli leyfa sér slíkt við þessa umræðu. Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að það þarf enginn að segja mér að það sem fjölmiðlar hafa dregið fram sé tæmandi talning á því sem þarna hefur átt sér stað.

Landssíminn er gríðarlega mikilvægt fyrirtæki. Hann er hornsteinn okkar í upplýsingabyltingunni. Við verðum að umgangast þetta fyrirtæki mjög varlega. Dreifikerfið, þjóðvegurinn um landsbyggðina o.s.frv. Það er gríðarlega mikilvægt að við gerum þetta skynsamlega. Fyrirtækið veltir 18 milljörðum. Þetta er ekki lítið fyrirtæki. Nú er lykilatriði að þingið sinni skyldu sinni og fari ofan í þetta mál.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hef ólíkt meiri trú á stjórnarskrárgjafanum en þeir hæstv. ráðherrar sem hér hafa talað og gert lítið úr þeim möguleikum sem stjórnarskráin býður upp á.