Skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 15:51:27 (5691)

2002-03-06 15:51:27# 127. lþ. 90.1 fundur 554. mál: #A skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Það er mikill misskilningur sem heyra má í málflutningi stjórnarliða í þessari umræðu að tilgangur hennar af hálfu Samfylkingarinnar sé sá að þyrla upp moldviðri og reyna hafa pólitískan ávinning af þeim vandamálum, því klúðri, þeirri óstjórn og þeirri misnotkun á almannafé sem trúnaðarmenn ríkisstjórnarinnar í ríkiskerfinu hafa orðið uppvísir að. Málin eru einfaldlega alvarlegri en svo að Samfylkingin þurfi eða vilji taka á málinu með þeim formerkjum. Við viljum taka á þessu máli af festu og yfirvegun. Hér erum við að ræða um hvernig Alþingi, við hér inni, aðilar sem kjörnir eru til þess og ber skylda til þess samkvæmt stjórnarskrá ættum að taka á þeim viðfangsefnum sem hrannast hafa upp á síðustu vikum, mánuðum og árum hjá framkvæmdarvaldinu. Sú skylda stendur á okkur og við eigum að axla hana.

Það er ljóst, þegar ferli Landssímaklúðursins er skoðað, að ríkisstjórnin og þeir ráðherrar sem einkanlega hafa komið að málinu, samgrh. og forsrh., hafa hrakist undan frá fyrsta degi. Þeir byrjuðu á að tala málið niður, gera lítið úr þeim athugasemdum sem ýmsir gerðu við ýmis atriði í rekstri Símans og öllu utanumhaldi varðandi tilraunir til sölu þessa þjóðarfyrirtækis. Því til viðbótar hefur Alþingi meira og minna verið neitað um umbeðnar upplýsingar sem máli skipta um Símann og hagsmuni hans. Hefur samgrh. því miður fetað þá slóð og vísað til forskriftar sem forsrh. sjálfur hefur sett, að neita Alþingi um upplýsingar. Þetta er gjörsamlega óviðunandi með öllu. Betur hefði verið að málefni Símans hefðu verið uppi á borðum. Það hefði hugsanlega getað komið í veg fyrir eða a.m.k. dregið úr ýmsum þeim axarsköftum sem blasa nú við.

Rannsóknarnefnd, spyrja menn. Hvers vegna? Við þekkjum það frá nágrannalöndum okkar, til að mynda frá Danmörku, svo ekki sé talað um Bandaríkin, að þetta úrræði kjörinna fulltrúa er mjög mikið notað. Er þetta ekki bara eitthvert pólitískt hanaat af hálfu stjórnarandstöðunnar, eitthvað sem hægt er að gera gys að við útvarpsumræðu eins og hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar leyfa sér? Nei, auðvitað ekki. Hér er einfaldlega um að ræða úrræði sem stjórnarskráin sjálf leggur okkur á herðar, hvernig tryggja megi aðkomu Alþingis að eftirliti með framkvæmdarvaldinu.

Herra forseti. Því miður hafa hvorki stjórnfesta né öryggi einkennt viðbrögð stjórnvalda við þeim ávirðingum sem upp hafa komið. Þvert á móti hafa viðbrögðin verið lítil sem engin, því miður. Það einasta sem yfirstjórn Símans, í umboði ráðherranna, hefur lagt til málanna er að reka þann einstakling einan sem upplýsti um alvarlega þætti málsins.

Svo er hitt. Hvenær hefst og hvenær lýkur ábyrgð kjörinna fulltrúa, ráðherra í ríkisstjórninni? Ef það er rétt að reka forstjóra, stjórnarformann, heila stjórn, losa sig við formann einkavæðingarnefndar, er þá mjög rökrétt að þeir ráðherrar sem völdu þessa einstaklinga til starfa og röðuðu þeim á jötuna --- þeir voru sérlega handvaldir af þessum sömu ráðherrum --- beri enga ábyrgð, hvorki pólitíska né aðra? Er það mjög rökrétt, herra forseti? Að þessu leyti hefur formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, rétt fyrir sér. Hann segir það ekki réttlátt að gera almenna stjórnarmenn ábyrga fyrir hlutum sem þeir vissu ekki af, svo sem fimm ára óuppsegjanlegum samningi Þórarins Viðars Þórarinssonar forstjóra ellegar ráðgjafarsamningi sem gerður var við stjórnarformann Símans. Formaður þingflokks annars stjórnarflokksins, Framsfl., sagði orðrétt í viðtali við útvarpið í gær, með leyfi forseta:

,,Það verður að snúa sér að þeim sem þeim málum réðu til lykta.``

Hverjir eru það, herra forseti? Það er hæstv. samgrh. annars vegar og hæstv. forsrh. hins vegar. Bragð er að þá barnið finnur. Meira að segja Framsfl. er farinn að átta sig á því að það er eitthvað til sem heitir pólitísk ábyrgð.

Í þessu ljósi hafði ég ímyndað mér, herra forseti, og vonast til að stjórnarliðar, bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, fögnuðu því sérstaklega tillögu okkar samfylkingarmanna, að þeir hefðu nú tækifæri og vettvang til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum. En því er ekki að heilsa, því miður, eftir fyrstu viðbrögðum stjórnarliða. Enn og aftur á að reyna að halda áfram feluleiknum, forðast með öllum tiltækum ráðum að hið sanna og rétta komi í ljós. Enn á að reyna að dylja veruleikann. Við samfylkingarmenn, herra forseti, erum ekki með blóðbragð í munninum. Við erum ekki að heimta pólitískar aftökur. Við erum ekki að hrópa: Úlfur, úlfur! Það sem við viljum hins vegar er opið og heiðarlegt stjórnkerfi. Við viljum einfaldlega að hið sanna komi í ljós. Þjóðin á rétt á því. Þjóðin á kröfu á því. Samsæri þagnarinnar er að hruni komið. Sannleikurinn finnur sér farveg á endanum hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, herra forseti.