Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 10:39:40 (5701)

2002-03-07 10:39:40# 127. lþ. 91.91 fundur 377#B mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[10:39]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Svör Seðlabankans við spurningum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur lýsa í hnotskurn vanda sem efnahagslífið á Íslandi á við að glíma. Bankinn sér engin önnur úrræði en himinháa vexti til að halda sjó og koma í veg fyrir nýjar gengisfellingar og verðbólguöldur. Það á að halda áfram að stýra með neyðarstýrinu eins og gert hefur verið viðvarandi, í mörg ár. En það er umhugsunarefni hvort það virkar nokkurn skapaðan hlut vegna þess að allir sem taka þátt í leiknum eru hættir að trúa því að vextir lækki nokkurn tíma á Íslandi. Vegna þess að allir sem taka þátt í leiknum eru hættir að trúa þessu halda menn áfram að fjárfesta út frá því að svona verði þetta áfram. Það er orðið ljóst að bankinn ætlar ekki að nýta tímann fram að næsta spennutíma í efnahagslífinu til að lækka vexti og koma á einhverju ásættanlegu horfi.

Þessi hávaxtastefna er orðin þjóðinni dýr á undanförnum árum. Almenningur er skuldsettari en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Hann er reyndar skuldsettari en fyrirfinnst í vestrænum samfélögum. Hávaxtastefnan kemur þess vegna við íslensk heimili af miklum þunga en almennt atvinnulíf í landinu hefur þó mest skaðast af þessu. Í því óstöðuga hagkerfi sem hér ríkir eru þessir vextir óásættanlegir. Himinháir vextir, gengisfellingardýfur og gengishækkunarhrinur eru það umhverfi sem íslensk hagstjórn færir íslenskum fyrirtækjum til að lifa í. Ætlast er til að þessi fyrirtæki geti svo keppt við innflutning frá öðrum löndum og í útflutningi við fyrirtæki sem búa við lága stöðuga vexti og trausta gjaldmiðla. Það að stjórnvöld skuli ekki geta stjórnað efnahagsmálum betur en raun ber vitni er mikið umhugsunarefni og helsta ástæða þess að margir hallast að því að betra væri að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þessi krafa mun magnast og verða sérstaklega sett af atvinnulífinu með vaxandi þunga ef svo fer fram sem horfir í þessum efnum. Tíminn er að renna út hjá stjórnvöldum á Íslandi.