Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 10:44:27 (5703)

2002-03-07 10:44:27# 127. lþ. 91.91 fundur 377#B mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[10:44]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Þó að þakka megi það svar sem hér liggur fyrir ber að gagnrýna það um leið. Það gerir fátt annað en að staðfesta þá gífurlegu óvissu sem ríkir um þessar fyrirhuguðu framkvæmdir sem ríkisstjórnin ætlar nú að ana út í.

Það er Seðlabankinn sem svarar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur en ekki hæstv. forsrh. og á því ber að vekja athygli. Seðlabankinn notar í þessu svari sínu minnisblað frá Þjóðhagsstofnun um meinta arðsemi eða efnahagsleg áhrif Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði. Seðlabankinn tekur fram í svari sínu að það sé ekki mögulegt að svara til fullnustu þeim spurningum sem lagðar eru fram af hv. þm. á þeim skamma tíma sem er til stefnu. Ekki hafi tekist að fá í tíma aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg séu til að leggja sjálfstætt mat á áhrif verkefnisins, og nú spyr ég hæstv. forsrh.: Ætlar hæstv. forsrh. að samþykkja það sem hv. formaður efh.- og viðskn. gaf yfirlýsingu um hér áðan að nefndin afgreiði efnahagslegan þátt málsins frá sér á morgun áður en þau gögn sem Seðlabankinn segir að vanti til þess að hægt sé að meta áhrif þessara framkvæmda liggja fyrir? Við verðum, herra forseti, að fá svör við því frá hæstv. forsrh.

Sömuleiðis vil ég vekja athygli hv. þingmanna á greinargerð um efnahagslega og samfélagslega þætti matsskýrslu um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands segir fullum fetum í niðurlagi þessarar greinargerðar að áætluð áhrif Noral-verkefnsins ráðist að verulegu leyti af því hvernig efnahagsástand í landinu verði þegar framkvæmdir hefjast. Þar kemur líka fram að stjórnvöld þurfa að móta stefnu sem tryggi stöðugleika og dragi úr verðhækkunum áður en verkefninu verður hrint í framkvæmd. Hvernig hyggst hæstv. ríkisstjórn gera það? Um það verða að liggja fyrir upplýsingar áður en mál af þessari stærðargráðu eru rifin út úr þingnefndum.