Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 10:48:43 (5705)

2002-03-07 10:48:43# 127. lþ. 91.91 fundur 377#B mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[10:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er rangt sem hæstv. forsrh. hélt fram að ég væri að slá því föstu að vextir mundu hækka um 1--2,5% frá árinu í ár fram til ársins 2005. Það sem ég sagði var --- og vitna þar í svar Seðlabankans --- að ekki sé ósennilegt að vextir muni þurfa að hækka um 1--2,5% og það þegar í sumar eða haust um 2,5% ef verðbólgumarkmiðin sem Seðlabankinn hefur sett sér eiga að haldast og ef ekki koma til aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálasviðinu. Þar erum við að tala um á mannamáli niðurskurð á opinberum framkvæmdum eða niðurskurð á velferðarkerfinu ef á annað borð verði ráðist í þessar framkvæmdir.

Það sem við erum að kalla eftir sem eigum að fara að taka afstöðu til þessa máls er hvort og hvaða aðgerða ríkisstjórnin muni grípa til ef til kemur að ráðist verði í þessar framkvæmdir og ef til kemur að slíkar vaxtahækkanir þurfi að ganga fram. Mun ríkisstjórnin bregðast við með þeim hætti til að slíkar vaxtahækkanir upp á allt að 2,5% þurfi ekki að ganga fram, að koma með aðgerðir á ríkisfjármálasviðinu? Og hverjar verða þá þær aðgerðir? Það er ekkert óeðlilegt, herra forseti, að þingmenn séu að kalla eftir slíkum upplýsingum. Þetta er ekkert smátt ef vextirnir eiga að fara að hækka um 2,5% kannski þegar í haust. Menn eru með væntingar núna um vaxtalækkanir upp á 0,5--1%. Þær ganga kannski fram og svo skömmu síðar þurfa vextir að hækka kannski um 2,5%. Ég spyr: Hvað segir ASÍ sem hefur verið að kalla eftir vaxtalækkunum um það ef þetta hefur þessi áhrif? Við erum að tala um að ef verðbólgan þarf að hækka um 2% ef ekkert verður að gert, þá munu skuldir heimila og fyrirtækja hækka um 20 milljarða ef við sjáum 2% verðbólgu og bregðumst ekki við á ríkisfjármálasviðinu eða með vaxtabreytingum. Þess vegna er eðlilegt að kallað sé eftir þessum upplýsingum og ég spyr hæstv. ráðherra: Mun hann bregðast við og svara því til hvaða aðgerða þurfi að grípa? Og ég spyr um það sem ráðherrann svaraði ekki áðan: Mun því verða svarað um tölulið 4a sem ég nefndi hér áðan?