Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 10:51:02 (5706)

2002-03-07 10:51:02# 127. lþ. 91.91 fundur 377#B mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[10:51]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Varðandi þann lið sem hv. þm. nefndi síðast, þá tók ég fram að það yrði nægur tími þegar þessar upplýsingar lægju fyrir til að fjalla nánar um mótvægisaðgerðir.

Varðandi það hvort efh.- og viðskn. eigi að afgreiða málið eða ekki, þá gef ég engin fyrirmæli um það. Það er nefndarinnar að ákvarða það. En ég hlýt að vekja athygli á því að það sem nefndin er að skoða eru auðvitað langtímaáhrif þessara virkjana en ekki þær sveiflur sem kunna að verða meðan 200 milljarða framkvæmd gengur yfir. Þær sveiflur hafa ekki áhrif á þá endanlegu ákvörðun hvort við styðjum þessa virkjun eða ekki heldur langtímaafleiðingar slíkra framkvæmda.

Þegar menn tala um að þessar framkvæmdir geti leitt til þess að gengið falli og hrynji, þá er það auðvitað hrikalegt bull að láta slíkt út sér vegna þess að hér erum við að leggja drög að því að stofna til stórkostlegs atvinnureksturs sem leggur útflutningi Íslendinga lið. Það er algerlega augljóst að slík framkvæmd til lengri tíma litið er til þess fallin að styrkja íslenska gengið en ekki veikja það. Það held ég að hver maður sjái í hendi sér. Öflugur útflutningsiðnaður sem rís á Íslandi er til þess fallinn til lengri tíma að styrkja stöðu íslenska gengisins en ekki veikja það. Það er alveg fráleitt að halda öðru fram.

Eins og komið hefur fram áður, þá er það svo þegar slík framkvæmd gengur yfir á einhverjum ákveðnum tímabilum, þegar 200 milljarða framkvæmd stendur yfir, þá verða einhverjar sveiflur til og frá í efnahagsstöðu okkar af því að efnahagskerfi okkar er opið og frjálst. Það er ekkert við því að segja. Það er ekkert nema gott um það að segja. Meginatriðið er að þessi framkvæmd komist á. En eins og ég segi og ítreka, hún er ekki enn þá í hendi. Við erum hins vegar að reyna að leggja grundvöll að þeirri framkvæmd en hún er ekki enn þá í hendi. Við verðum að hafa það í huga.