Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 10:55:11 (5708)

2002-03-07 10:55:11# 127. lþ. 91.4 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[10:55]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 920 er nál. frá samgn. um frv. til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum. Þar segir svo:

Með frumvarpinu er lagt til að frestur sjómanna til að sækja lögboðna öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum aðila verði bundinn við þá dagsetningu sem sjómaður er skráður á námskeið í skólanum.

Námskeið í öryggisfræðslu er eitt af skilyrðum lögskráningar. Erfiðlega hefur þó gengið að fá sjómenn til að sækja þessi námskeið og hafa margir hverjir oft frestað töku þess og komist upp með það framan af svo sem rakið er í athugasemdum við frumvarpið.

Frumvarpið er lagt fram til að bregðast við því ástandi sem skapast hefur eftir að lögskráningarumdæmi fóru að synja mönnum um lögskráningu á þessum grundvelli um síðustu áramót, en síðan þá hafa orðið til miklir biðlistar á námskeið í Slysavarnaskóla sjómanna.

Ljóst er að þau tilvik geta komið upp þar sem óviðráðanlegar aðstæður valda því að sjómaður sem fengið hefur frest samkvæmt frumvarpinu getur ekki sótt námskeið sem hann hefur skráð sig á. Nauðsynlegt er að þeir aðilar sem málið varðar bregðist við slíkum aðstæðum þannig að það valdi sem minnstri röskun á stöðu og högum viðkomandi sjómanns og mælist nefndin til þess að þetta verði haft í huga.

Nefndin leggur til smávægilega orðalagsbreytingu á 1. gr. frv. sem kemur fram á þingskjalinu.

Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málins en þeir sem undirrita nál. eru hv. þm., sá er hér stendur, Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Sigríður Ingvarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Jónas Hallgrímsson, Kristján L. Möller og Jón Bjarnason með fyrirvara.