Skylduskil til safna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:30:58 (5719)

2002-03-07 11:30:58# 127. lþ. 91.5 fundur 228. mál: #A skylduskil til safna# (heildarlög) frv. 20/2002, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:30]

Frsm. menntmn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir hönd hv. menntmn. fyrir nál. á þskj. 858 um frv. til laga um skylduskil til safna. Þetta er að mínu mati athyglisvert frv. og í nefndinni náðist mjög góð sátt um það.

Tilgangur löggjafar um skylduskil er að tryggja að sá hluti þjóðararfsins og menningar okkar sem lögin ná til varðveitist fyrir komandi kynslóðir, verði skráður og sé aðgengilegur til rannsókna og skoðunar. Sé litið til alþjóðlegra viðmiðana er það hlutverk þjóðbókasafna að safna skráðri menningarsögu þjóðar sinnar.

Við verðum að átta okkur á því að ný tækni hefur rutt sér til rúms og er þetta frv. þar af leiðandi mótað af því. Núgildandi lög um skylduskil til safna frá árinu 1977 kveða á um skylduskil á prentuðum og fjölfölduðum texta og myndefni. Einnig eru hljómplötur og aðrar tón- og talupptökur skilaskyldar. Aðrar tegundir hugverka en hér hafa verið taldar eru ekki skilaskyldar samkvæmt gildandi lögum um skylduskil til safna en ákvæði eru um slík skil í ýmsum sérlögum. Með fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að skilaskylda taki nú einnig til kvikmynda, útvarpsefnis, efnis á rafrænum miðlum, auk örgagna og myndefnis á skyggnum. Eðli málsins samkvæmt er afar erfitt að láta skilaskylduna ná til alls efnis sem út hefur komið og þar af leiðandi er ekki ætlast til þess í þessu frv. að hún nái út yfir allt. Mig minnir að í 19. gr. frv. sé einmitt fjallað um undanþágur frá skilaskyldunni.

Ný löggjöf um skylduskil til safna leggur ríkari skyldur á hlutaðeigandi stofnanir. Mikilvægt er að við fjárlagagerð verði tekið tillit til þess viðbótarkostnaðar sem af þessu leiðir þannig að hin metnaðarfullu markmið frv. nái fram að ganga.

Við ræddum einmitt ítarlega 2. mgr. 19. gr. frv. en þar segir:

,,Í reglugerð er heimilt að mæla fyrir um frekari undanþágur frá skylduskilum.``

Við fórum vel ofan í þetta og nefndin leggur á þskj. 859 fram brtt. sína varðandi þessa grein þar sem lagt er til að þessi málsgrein falli brott. Í nál. er það rökstutt ítarlega með tilvísun í 77. gr. stjórnarskrárinnar sem var breytt árið 1995 en greinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.``

Í síðari málslið 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar er beinlínis tekið fram að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort skattur verði lagður á, honum breytt eða hann afnuminn. Efnislega er þessi regla nokkuð skyld þeirri sem kemur fram í upphafsmálslið 40. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mælt er fyrir um að engan skatt megi á leggja, breyta né af taka nema með lögum. Dómstólar hafa orðið að leysa úr því í allnokkrum málum hvort eða hvernig þau fyrirmæli útiloki eða takmarki heimildir löggjafans til að framselja með lögum ákvörðunarvald um þessi atriði til stjórnvalda. Með orðalaginu í þessu ákvæði frv. er leitast við að taka af skarið með miklu ákveðnari hætti en gert er í 40. gr. stjórnarskrárinnar um að löggjafinn megi ekki framselja til framkvæmdarvaldsins ákvörðunarrétt um fyrrnefnd atriði heldur verði að taka afstöðu til þeirra í settum lögum.

Ég vil einnig benda á brtt. frá hv. menntmn. við 11. gr. laganna en þar bætast þrjár skilgreiningar við, í fyrsta lagi skilgreining á orðinu ,,kvikmynd``, í öðru lagi er lagt til að við bætist skilgreining á orðunum ,,íslensk kvikmynd`` og að lokum er lagt til að við bætist skilgreining á ,,íslenskum framleiðanda`` og í rauninni skýrir hún sig sjálf.

Herra forseti. Fyrir hönd menntmn. mæli ég með því að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar eru á þskj. 859.