Kosningar til sveitarstjórna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:55:55 (5728)

2002-03-07 11:55:55# 127. lþ. 91.8 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:55]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu gagnmerkt frv. um margt um kosningar til sveitarstjórna og hefur það tækifæri verið nýtt núna að laga ýmislegt sem þykir ábótavant í lögum um kosningar til sveitarstjórna.

Það er tvennt sem ég vil gera verulegar athugasemdir við. Það er annars vegar varðandi hina erlendu borgara og norræna borgara og hins vegar varðandi rafrænar kosningar. Það eru þau tvö meginmál sem ég vil gera athugasemdir við, öðru er skortur á, þ.e. rafrænu kosningunum, og hins vegar varðandi blessaða útlendingana hvort sem þeir eru norrænir, úr Evrópu eða hvaðan þeir koma.

Mér finnst afar sérstætt, ég verð að segja það alveg eins og er og vil spyrja hvort við erum að segja okkur úr samlagi við hinar norrænu þjóðir, því að hinar norrænu þjóðir gera mikið úr því að jafnstaða sé meðal norrænna borgara á milli landa. Við getum farið til hvaða Norðurlanda sem er og kosið um leið og við komum þangað og þetta er þannig í allri Skandinavíu hvað varðar norræna borgara. Norrænir borgarar þurfa hins vegar að bíða hér í þrjú ár. Mér finnst það ekki ganga og mér finnst það ekki vera í samræmi við þann ávöxt af hinu norræna samstarfi sem við erum tala um. Við erum að leyfa okkur meiri þrengingar en aðrar norrænar þjóðir. Ég set stórt spurningarmerki við það og ég vil að það verði tekið upp í Norðurlandaráði vegna þess að mér finnst þetta ekki ganga. Mér finnst við ekki geta hagað okkur þannig að við eigum að eiga réttinn okkar allan alls staðar annars staðar en við skulum takmarka rétt annarra hér hjá okkur, mér finnst það ekki ganga.

Í samþykkt Evrópuráðsins frá 1992 --- ég vil benda á að hér kom fram frv. 1998, því var ekki breytt þá, þeim tilmælum að ganga að því að efla kosningarrétt annarra útlendinga til sveitarstjórna. Það var ekki gert þá því miður. Hinir norrænu borgarar, hið norræna samfélag er yfirleitt með tvö til þrjú ár núna, eins og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir, það eru tvö til þrjú ár.

Nei, við veljum einhvern veginn fimm ár. Það eru ekki nokkur rök á bak við það önnur en þau að það skal vera lengri tími án þess að hann sé rökstuddur. Ég vil að við séum þar líka í samræmi við önnur Norðurlönd og það eru sérstök tilmæli, það kemur fram í grg., að ef þetta ákvæði verður að lögum þá er uppfyllt lágmarksskilyrði sáttmála Evrópuráðsins frá 1992 um þátttöku útlendinga í opinberu lífi á sveitarstjórnarstigi. Lágmarksskilyrði, en það segir líka heldur ekkert um það að við getum ekki verið með önnur skilyrði.

Og ég vil, úr því að við erum alltaf að tala um að við séum í góðu heildarsamstarfi við Norðurlöndin, þar liggi okkar rætur, þá vil ég líka að við séum á svipuðu róli. Það væri mjög gaman og ég mun biðja um upplýsingar um það í hv. félmn. hversu margir mundu bætast við ef við værum bara með það að norrænir borgarar gætu greitt hér atkvæði um leið og þeir yrðu með lögheimili hér, alveg eins og við getum gert þegar við komum annars staðar. Hversu margir yrðu það þá? Og hversu margir ef við værum með þrjú ár fyrir aðra erlenda borgara, því að það er afar mikilvægt að útlendingar --- við erum líka með búseturéttinn, hann er til þriggja ára, af hverju erum við að búa til nýja reglu? Af hverju nýtum við ekki bara þessa þriggja ára reglu í gegnum öll kerfi, t.d. í atvinnuréttindunum. Við sjáum það núna í útlendingafrv., þar erum við að tala um búsetu- og dvarleyfi, það eru þrjú ár. Við erum alltaf að tala um þrjú ár. En allt í einu núna upp á það að fólk geti verið virkt í sínum sveitarfélögum, tekið þátt í því sem að því snýr og við vitum vel að sveitarstjórnir eru þau mál sem standa fólki næst, af hverju á þetta fólk ekki, þegar það er komið með búsetuleyfi og sitt græna kort, af hverju má það ekki taka þá fullan þátt í samfélaginu með því að kjósa og bjóða sig fram? Þetta er fólkið sem heldur uppi heilu sveitarfélögunum úti á landi. Nei, fimm ár skal það vera og það er ekkert, það er enginn rökstuðningur á bak við það.

[12:00]

Ég boða hér með að lagðar verða fram brtt. í þessa átt, a.m.k. frá okkur samfylkingarfólki og vonandi fleirum, því þetta er ekkert system og líka gagnvart norrænum borgurum, að við högum okkur nákvæmlega eins og aðrir norrænir borgarar haga sér gagnvart okkur. Það er svo einfalt í mínum huga. Þetta snýr hreinlega að jafnræði borgaranna og jafnræðisreglu meðal norrænna borgara. Það er mjög skýrt í mínum huga. Ég er hér með öll lögin frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi sem er hægt að leggja fram í hæstv. félmn.

Annað vildi ég gera að umtalsefni sem hefði verið löngu tímabært að koma með inn því það hefur margt gerst frá 1998 og það er spurningin um að hafa möguleika á rafrænum kosningum.

Því miður hefur einn flokkur ályktað um það á landsfundi sínum að ekki skuli heimila rafrænar kosningar. Það er afar sérstakt ef skoðuð eru öll prófkjör sem hafa átt sér stað núna vegna sveitarstjórnarkosninganna, þá er það sá flokkur sem hefur notað rafræna kosningu og gengið afspyrnuvel og fólk í hans ranni þrýstir afar mikið á að sá möguleiki sé til staðar. Og þetta á sérstaklega við um minni sveitarfélög. Lýtur þetta að því að kostnaður verður minni og minna umfang verður, hægt er að fækka kjörstjórnarfulltrúum í kjördeild, hægt er að stækka kjördeildir, og að dómsmrn. skuli ekki hafa heimilað að hafa einhvers staðar tilraun í gangi í landinu er náttúrlega þvílík afturhaldssemi, afsakið, herra forseti, að eiginlega fer um mann hálfgerður hrollur. Þetta er eins og að vera hestur með skjól og neita að horfa á þann raunveruleika og þá þróun sem er að gerast í kringum okkur. Og ég vil enn ítreka að það er samt sem áður sá flokkur sem er búinn að nota rafrænar kosningar hvað mest í tengslum við prófkjör og það hefur lukkast mjög vel og allt gengið eins og átti að gera.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessa umræðu miklu lengri því við eigum eftir að ræða þetta í nefndinni. Auðvitað vil ég að þetta frv. fari í gegn, það er mjög margt sem verið er að laga sem þarf að laga fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, og ég vil ekki tefja það, það er alveg af og frá, en boðaðar verða brtt. varðandi þetta mál og einnig um að hægt verði að vera með rafrænar kosningar.

Ég hef þetta ekki lengra í bili, herra forseti, og mun ræða þetta áfram í hv. félmn.