Kosningar til sveitarstjórna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 12:03:13 (5729)

2002-03-07 12:03:13# 127. lþ. 91.8 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[12:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða frv. til laga um kosningar til sveitarstjórna og ég verð að segja að hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir kom með öll helstu atriðin sem athugaverð eru við frv.

Mér kom ákaflega á óvart að lesa frv. í gegn og sjá að ekki er minnst á rafrænar kosningar og engin heimild til slíkra kosninga í frv. Það er sérkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur ályktað sérstaklega um upplýsingasamfélagið og stefnumótun í málefnum þess og hefur gert því hátt undir höfði á tyllidögum. Ef kíkt er t.d. á heimasíðu forsrn., þá er þar langur bálkur um mikilvægi upplýsingasamfélagsins og hvaða vinna sé í gangi. Nefndir eru að störfum og verið er að vinna í verkefnastjórnum út og suður að upplýsingasamfélaginu. Síðan þegar á að fara að koma til framkvæmdanna, þá er ekki eitt einasta orð um neitt í þessa veru, ekki minnst á rafrænar kosningar þó svo, eins og komið hefur hér fram, að þetta hafi verið reynt hér víða og gefist mjög vel. Ég vil nú bæta við af því að fram kom hjá síðasta ræðumanni að þetta væri mikilvægt fyrir litlu sveitarfélögin, það er ekki síður mikilvægt fyrir stóru sveitarfélögin að vera með rafrænar kosningar.

Kosturinn við rafrænar kosningar er margvíslegur. Það er t.d. ekki nauðsynlegt að allir fari í ákveðna kjördeild, hægt er að fara í hvaða kjördeild sem er. Og það er auðvitað áhyggjuefni að þátttaka í kosningum hefur farið minnkandi og það má búast við því að rafrænar kosningar mundu vega upp á móti þar sem fólk getur farið í hvaða kjördeild sem er og á ekki að þurfa að bíða eftir að komast að. Þær eru afkastameiri. Niðurstöður koma fljótar. Auðveldara er að safna saman efni í skýrslur. Menn vita alltaf hvernig staðan er á hverjum tímapunkti.

Ég verð auðvitað að segja það líka að það er sérkennilegt í ljósi þess að Sjálfstfl., annar stjórnarflokkurinn, hefur ályktað um það á landsfundi að ekki skuli heimila notkun rafrænnar kjörskrár. Engu að síður vill Sjálfstfl. að Ísland verði áfram í fararbroddi þjóða heims við hagnýtingu og þróun upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar. Þetta er beint upp úr ályktun um stefnu Sjálfstfl. sem er slík mótsögn við niðurstöðu landsfundarins að það er fyndið, maður gæti haldið að maður væri í Spaugstofunni þegar ályktunin er lesin og síðan niðurstaðan. Þeir vilja að Ísland verði í röð fremstu þjóða í rafrænni stjórnsýslu. Lögð er áhersla á að hún þróist eðlilega við hlið hinnar hefðbundnu --- það er nú alls ekki gert ráð fyrir því í frv. --- og að flýtt verði eins og kostur er setningu laga og reglugerða sem ryðja úr vegi þeim hindrunum sem nú eru fyrir notkun upplýsingatækni í gagnvirkri þjónustu. Þetta er niðurstaða Sjálfstfl. á landsfundi. Svona gæti ég lengi lesið upp úr ályktunum sem allar eru í þá veru að það eigi að koma hér á rafrænni kosningu en síðan er niðurstaðan fáránleg í ljósi þess.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hann nefndi áðan að það hefði orðið niðurstaða, það var nú reyndar í sambandi við kosningarréttinn sem ég ætla að koma að síðar, en ég velti fyrir mér hverjir komust að niðurstöðu um að ekki ætti að nefna rafræna kosningu eða heimila hana. Hvernig stendur á því að þetta er ekki í frv., sérstaklega í ljósi stefnu ríkisstjórnarinnar og stefnu stjórnarflokkanna og bara eðlilegrar þróunar í upplýsingatækni? Mér kemur ákaflega á óvart að sjá þetta.

Síðan vil ég taka undir þá gagnrýni heils hugar sem kom fram á réttindi útlendinga til kosningaþátttöku hér. Hvernig stendur á því að við ætlum að fara að draga okkur svona út úr norrænum þjóðum með því að heimila ekki norrænum ríkisborgurum að greiða hér atkvæði í sveitarstjórnarkosningum á sama hátt og við eigum rétt á að gera á Norðurlöndunum? Það er með ólíkindum að ætla að bjóða upp á þetta og í rauninni móðgun við norrænt samstarf að ætla að fara þessa leið. Ég hefði talið eðlilegt að norrænir íbúar hér hefðu sama rétt og við höfum á Norðurlöndunum og síðan að aðrir útlendingar hefðu þá jafnvel þessa þriggja ára búsetu sem verið er að leggja til fyrir norrænu íbúana.

Það er auðvitað ekki boðlegt að ætla að fara þessa leið og ég tek undir það að við munum leggja fram brtt. í félmn., fulltrúar Samfylkingarinnar þar, því við getum alls ekki sætt okkur við þessa niðurstöðu. Frv. er allt of íhaldssamt og afturhaldssamt í þessum efnum. Sömuleiðis varðandi heimildina til rafrænna kosninga. Ég geri ráð fyrir að við munum líka koma með brtt. þar, því það er ekki boðlegt að samþykkja frv. sem er í þessa veru og ekki er tekið á þessum þáttum.

Ég vil minna á að í félmn. liggur fyrir frv. frá sex hv. þm. Samfylkingarinnar um sama efni, um réttindi fyrir útlendinga til að taka þátt í kosningum til sveitarstjórna, sem gengur lengra en þetta frv. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni en ég held ég hafi komið helstu athugasemdum mínum á framfæri hér.