Kosningar til sveitarstjórna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 12:30:25 (5732)

2002-03-07 12:30:25# 127. lþ. 91.8 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[12:30]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég tel að frv. sé til bóta en mér finnst það ekki nútímalegt og ekki taka mið af því sem ég hefði talið að væru þau skref sem við ættum að taka í þessu máli núna.

Ég tek undir með öðrum ræðumönnum, hv. þm. sem hafa komið í þennan ræðustól, að mér finnst að rétturinn gagnvart Norðurlandaþjóðunum eigi að vera alveg nákvæmlega eins hér á landi og hann er fyrir okkur í þeirra löndum. Ég hefði einnig talið að eðlilegt væri að færa rétt til kosninga í sveitarstjórnum niður í þriggja ára búsetu en ekki fimm eins og hér er lagt til og að við færum þar að sömu reglu og almennt gildir annars staðar á Norðurlöndum, þó svo að Finnar séu þar með tvö ár. Ég hefði talið að við færum a.m.k. í það far sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa kosið að velja sér að þessu leyti.

Ég vil líka vekja athygli á því að í lögum um útlendinga er talað um að ótímabundið atvinnuleyfi sé miðað við þrjú ár. Mér finnst óþarfi að setja upp alls konar mismunandi viðmiðanir í árum varðandi réttindi fólks sem hér sest að, hefur lögheimili, nýtir sér þjónustu samfélaga sem það býr í, byggir undir þau samfélög með atvinnu sinni og viðveru og eignast þar hús. Ég tel alveg tvímælalaust að það eigi að færa þessu fólki félagsleg réttindi að því leyti að fá að taka þátt í kosningum til sveitarstjórna þar sem það býr. Ég legg þess vegna alveg eindregið til að frv. verði breytt í þá veru að útlendingar sem koma frá öðrum löndum en Norðurlöndunum fái að lágmarki að taka þátt í kosningum til sveitarstjórna eftir þriggja ára dvöl. Mér fyndist það alveg lágmark að við færum a.m.k. á sama stað og aðrar þjóðir sem við miðum okkur við, Norðurlandaþjóðirnar, gera að þessu leyti. Einnig tel ég að eigum við að fara nákvæmlega eins að gagnvart Norðurlandaþjóðunum og þar er gert, að fólk sem hér hefur sest að og á lögheimili hér á landi frá þeim löndum, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, eigi hér sama rétt og við eigum í þeirra löndum.

Aðrar greinar frv. eru lagfæringar miðað við þær breytingar sem verða að teljast eðlilegar að flestu leyti, eins og kosningalögin, og ætla ég ekki að gera þær mikið að umræðuefni.

Ég vil hins vegar aðeins víkja að rafrænum kosningum. Ég tel að við eigum að innleiða þann möguleika í kosningalögin og mér finnst virkilega tilefni til þess að taka það hér inn í frv. um réttinn til sveitarstjórnarkosninga. Og ég vil taka undir það sem hér hefur líka komið fram varðandi rafræna kjörskrá að ég tel að það væri til mikilla bóta.

Ég held ég þurfi ekki að hafa miklu lengra mál um frv. Ég er almennt hlynntur þeim breytingum sem hér eru lagðar til en geri þessa skýru fyrirvara að frv. gengur alls ekki nógu langt í því að auka lýðréttindi erlendra borgara sem hér eiga lögheimili og stunda hér atvinnu og byggja upp þetta þjóðfélag með okkur.